Laugardagur 13. apríl 2002

103. tbl. 6. árg.

Umpólun jarðar er hafin ef marka má fréttir gærdagsins og nyrðra segulskautið hefur tekið á rás yfir til Síberíu, eins og Morgunblaðið orðaði það. Þetta eru vitaskuld firn mikil og er óhætt að segja að víða hljóti að fara hrollur um menn, ekki síst í Síberíu. En svo merkileg sem umpólunin nú er fyrir áttavillta mannskepnuna, þá er annað mun merkilegra við frásögn af umpóluninni; henni hefur enn ekki fylgt sú skýring að um sé að kenna neysluhyggju Vesturlandabúa og mannvonsku markaðsbúskaparins. Eins og menn hafa tekið eftir er því nefnilega þannig farið, að jafnan þegar eitthvað breytist í náttúrunni, þá er leitað þeirrar skýringar að Vesturlandabúar hafi með allt of miklum innkaupum á vörum, sem séu aðeins til að uppfylla gerviþarfir, valdið þessum breytingum. Skiptir þá engu hversu líklegt er að hegðun mannsins hafi valdið þarna miklu um eða hvort glæpurinn hefur verið sannaður. Það þykir alveg aukaatriði.

Samkvæmt ágætri grein Friðriks Daníelssonar efnaverkfræðings í Morgunblaðinu í gær er jafnvel aukaatriði að sýnt hafi verið fram á að breytingin sé í raun að eiga sér stað. Undir fyrirsögninni „Alþingi blekkt“ fjallar Friðrik um þingsályktunartillögu þess efnis að Íslendingar gerist aðilar að Kyoto-bókunina um „loftslagsbreytingar“. Óhætt er að mæla með því að menn fletti upp á þessari grein og kynni sér efni hennar rækilega, en í sem skemmstu máli má segja að í henni útskýri Friðrik hvers vegna forsendur Kyoto-bókunarinnar standist ekki. Hann bendir á að menn séu nú að bregðast við því að jörðin hafi hitnað fyrir 60-80 árum, og láti eins og engu skipti að hún hefur kólnað frá þeim tíma. Þá segir hann ósannað að hitabreytingarnar eigi rætur að rekja til bruna manna á jarðefnaeldsneyti með tilheyrandi koltvísýringsútblæstri. Þá hafnar hann þeirri fullyrðingu að ef hitastig hækki muni þurrkar klárlega aukast og yfirborð sjávar hækka. Loks bendir Friðrik á að fjölmennustu ríki heims séu fyrir utan Kyoto og að Bandaríkin og Ástralía hafi þegar hafnað bókuninni.

Þess má loks geta að Friðrik Daníelsson efnaverkfræðingur gaf fyrir rúmu ári út áhugaverða bók þar sem meðal annars er komið inn á þetta efni. Bókin heitir 2000 árum eftir Vínlandsfund – Lifa Íslendingar annað árþúsund? og um hana var fjallað hér á sínum tíma.

Önnur áhugaverð heimild um hitabreytingar jarðar er heimasíða Ágústs H. Bjarnasonar rafmagnsverkfræðings. Hún er uppfærð reglulega með nýjustu upplýsingum og hann hefur meira að segja aukið hana með sérstakri síðu um það nýjasta í þessum fræðum. Kortið sem fylgir þessum pistli er fengið að láni af síðu Ágústs, en það sýnir sveiflur í virkni sólar (svarti ferillinn) og hitasveiflur jarðar (rauði ferillinn). Ágúst segir að þessi mynd hafi orðið til þess að hann vildi fræðast betur um áhrif sólar á veðurfar og þarf engan að undra það svo greinileg sem fylgnin virðist vera. Nema um algera tilviljun sé að ræða í 250 ár. Það skyldi þó ekki vera að sólin, sem allir eru sammála um að vermi jörðina, hafi áhrif á hitastig jarðar?! En vandinn er sá að ef menn finna út að líklega séu hitabreytingar ýmist af völdum sólar eða óútskýrðar, þá er minna fyrir stjórnlynda stjórnmálamenn að  gera. Þá geta þeir ekki undirritað Kyoto-bókanir, barið sér á brjóst og þóst vera að bjarga heiminum.