Helgarsprokið 17. mars 2002

76. tbl. 6. árg.

Evrópusambands- og evrusinnum hér á landi verður sjaldan orðafátt. Þeir hafa náð að temja sér þann sið brusselskra hetja sinna að láta frá sér stanslausan vaðal og umvandanir. Um leið og einhver hallar orði á Sambandið, eru góðar líkur á að skýrsla, bók eða ritsafn sé á næsta leyti, yfirleitt með þeirri útskýringu að það sé kominn tími til að taka ESB á dagskrá. Ólíkt öllum öðrum málefnum þjóðmálaumræðunnar, sem ber á góma margsinnis í hverri viku, þá hefur ESB nefnilega aldrei komist á dagskrá eins og þekkt er.

Fiskurinn í sjónum í kringum Ísland, eða verð á áli, eða uppfinningar hjá Íslenskri erfðagreiningu, eða tælenskir túristar á Íslandi, og svo fjölmargt annað sérstakt í íslensku hagkerfi, mun aldrei fara að taka skyndilega upp á því að laga sig að verkföllum í Frakklandi eða lokun verksmiðja í Austur-Þýskalandi.“

Í öllum flaumnum hafa hinir trúuðu hins vegar átt í dálitlum erfiðleikum með að svara einu. Og það er ekkert smámál, ekki frekar en hvort Ísland hefur meiri áhrif á reglugerðir um rottueitur í ESB en í EES. Hér snýst spurningin um það hvernig okkar landi muni vegna efnahagslega, þegar við höfum tekið upp evruna, og svo vill til að hagkerfi okkar sveiflast ekki í takt við það franska eða það þýska, eins og það sjaldnast gerir. Þegar Þýskaland og Frakkland eru á hátindi hagsveiflu og við í niðursveiflu, er ljóst að Seðlabanki Evrópu mun að sjálfsögðu bregðast við stöðu mála í stóru löndunum, en láta sig ástand íslenskra mála engu varða. Ísland mundi því þrýstast niður í enn dýpri kreppu, rétt eins og átti sér að lokum stað í Argentínu með tengingu gjaldmiðils hennar við alls óskylt hagkerfi, það bandaríska. Ef hitt gerist, sem oftar hefur verið raunin undanfarinn áratug, að á Íslandi er uppsveifla en Þýskaland og Frakkland hökta, fengjum Íslendingar aftur kolöfuga meðhöndlun í gegnum gjaldmiðilinn.

Vinsælasta svarið við þessari augljósu hættu er eftirfarandi: Þegar Ísland verður búið að taka upp evruna, þá verða öll viðskipti milli okkar og evrusvæðisins svo núningslaus og náin, að hagkerfin taka á sig svip hvors annars, allur mismunur í hagsveiflunni jafnast út og verður smám saman að engu.

Einmitt það. Ef satt væri, þá væru þetta sennilega bestu rökin gegn upptöku evrunnar á Íslandi, því varla viljum við láta steypa okkur í sama mót og evrulöndin, með sama langvarandi efnahagslega sleni og þau hafa lengi verið í. En það er sennilega of einfalt að afgreiða þetta með þessu, því það er auðvitað harla ólíklegt að hagsveiflan jafnist öll út milli svæða. Fiskurinn í sjónum í kringum Ísland, eða verð á áli, eða uppfinningar hjá Íslenskri erfðagreiningu, eða tælenskir túristar á Íslandi, og svo fjölmargt annað sérstakt í íslensku hagkerfi, mun aldrei fara að taka skyndilega upp á því að laga sig að verkföllum í Frakklandi eða lokun verksmiðja í Austur-Þýskalandi.

Aðalatriðið er hins vegar að ef á daginn kemur að evran gengur jafn vel og helstu klappstýrur hennar spá, í þeim skilningi að öll millilandaviðskipti aukast til muna og allir kantar rúnnast af, þá getur einmitt verið að hagkerfi landanna verði enn ólíkari innbyrðis og sérhæfðari en þau eru í dag, þveröfugt við spádómana um að allt steypist í sama mót. Eða af hverju ætti hver eining að taka á sig mynd smækkaðrar útgáfu af Þýskalandi, ef öll viðskipti ganga svo snurðulaust? Við mundum þá bara kaupa þær vörur og þá þjónustu af Þýskalandi sem þeir eru örlítið betri í en við að reiða fram, og eins mundum við halla okkur enn meira að okkar sérkennum.

Bandaríkin eru gott dæmi. Þar er gjaldmiðill sem er afar góður og gengur sérstaklega vel að nota milli staða innan þess stóra lands. En það hefur ekki þýtt að hvert einasta fylki sé vasaútgáfa af Kaliforníu. Því er einmitt öfugt farið, mikil sérhæfing ríkir milli fylkjanna. Í New York er fjármálageiri og fjölmiðlamiðstöð; í Los Angeles er skemmtanaiðnaður; í Detroit er bílaiðnaður; í Silicon Valley eru tölvu- og tæknifyrirtæki; í Seattle er líftækniiðnaður; í Las Vegas eru spilavíti; í Texas er olíubransi; stáliðnaðurinn er í Pittsburg og svo mætti áfram telja. Þessi fjölbreytni – eða ósamhverfa, svo notað sé orðalag sem innvígðir brúxelar skilja – er möguleg meðal annars vegna gjaldmiðilsins. En það þýðir auðvitað að það getur verið kreppa á einum stað á meðan það er uppsveifla á næsta, eingöngu vegna þess að það árar vel í einni grein en illa í annarri. Það er t.d. búinn að vera rífandi vöxtur í Kaliforníu í meira en áratug, á meðan mörg suðurríkin virðast vera í krónískri kreppu. En það kemur ekki að mikilli sök vestra, því fólk vílar ekki fyrir sér að flytja milli fylkja, allt eftir því hvar mest er að gera þá um þær mundir.

Þannig er þankagangurinn hins vegar ekki í Evrópu. Tungumálin ein og sér standa þar í veginum, fyrir utan fjölmargt annað, sem flækist fyrir fólki þegar það flytur með fjölskyldur sínar frá Austurríki til Portúgals eins og hendi sé veifað.

Þannig má svo sem færa rök að því, að ef björtustu væntingar Evrópusinna til skurðgoðs síns, evrunnar, ganga eftir, þá muni Evrópa ekki taka á sig nokkurn einn efnahagslegan heildarsvip, heldur verða enn meira mismunandi og fjölbreytileg milli landa.

Og ekkert að því svo sem. Vandamál Evrópusinnana er hins vegar bara, að þá mun reglulega allt loga í staðbundnum kreppum og góðærum. Og á meðan fólk vippar sér og sínum ekki sífellt milli Grikklands og Finnlands, að ekki sé talað um tregðuna í búferlaflutningum eftir að ESB hefur verið stækkað til austurs, þá eru góð ráð dýr. Sennilega yrði ESB bara að bregða á það ráð sem það kann best, ölmusu- og hækjutrikkið, og styrkja eitt svæði á kostnað annarra á meðan „þörf er á“. En þá fara menn að velta fyrir sér hver tilgangurinn með einum gjaldmiðli og núningslausum viðskiptum var eiginlega í upphafi. Og hringurinn lokast.