Hagfræðingurinn James Tobin er dauður. Hugmyndir hans lifa þó áfram, enda kom hann víða við á langri ævi og setti fram sjónarmið sín á jafn ólíkum sviðum og þjóðhagfræði og fjármálum. Sú hugmynd hans sem líklega mun helst verða haldið á loft á næstu árum verður þó líklega ekki til að gleðja hann þar sem hann dvelur nú, enda hætt við að hún verði misnotuð eins og á undanförnum árum. Umrædd hugmynd er að vísu langt frá því að vera gallalaus, en hún er þó ekki eins slæm og hún verður í meðförum þeirra sem mest hafa hampað henni undanfarin ár, þ.e.a.s. andstæðinga alþjóðavæðingar. Tobin harmaði það síðustu árin hvernig öfgasamtök höfðu gert hugmynd hans um skattlagningu fjármagnshreyfinga milli landa að sinni. Tobin var alla tíð, rétt eins og nánast allir aðrir hagfræðingar, mikill stuðningsmaður frjálsra viðskipta, en þeir sem helst hafa notfært sér hugmynd hans, sem kölluð hefur verið Tobins skattur, eru hatrammir andstæðingar viðskipta milli landa og virðast m.a.s. vera andvígir öllum viðskiptum. Þetta er fólk sem heldur að sjálfsþurftarbúskapur sé umhverfisvænn og göfugur, en viðskipti milli manna skaði náttúruna og geri fátæka enn fátækari. Undir slík sjónarmið tók Tobin aldrei, enda sagði hann í viðtali við þýska vikuritið Der Spiegel fyrir hálfu ári að þessir menn hefðu „misnotað nafn“ sitt og að hann hefði neitað þeim um að tala á samkomum þeirra.
En þó hugmyndin um Tobin skattinn hafi ekki verið jafn vitlaus og hugmyndir þessara andstæðinga frjálsra viðskipta er hún þó þess eðlis að hana er aðeins hægt að framkvæmda á krítartöflu en ekki í raunveruleikanum. Hugmyndina að skattlagningu á gjaldeyrisviðskipti sækir Tobin til J. M. Keynes, en sá setti í bók sinni Almennu kenningunni fram sambærilega hugmynd um skattlagningu á verðbréfaviðskipti. Hugmynd Tobins, eins og hann viðurkenndi sjálfur, væri ekki hægt að framkvæma nema allar þjóðir heims samþykktu að vera með í skattlagningunni, og menn geta rétt ímyndað sér hve vel gengi að ná samstöðu, fyrst um grundvallarhugmyndina að skattinum og svo um útfærsluna. Til þess þyrfti lipra samningamenn sem rétt væri að senda fyrst í nokkra daga til landanna fyrir botni Miðjarðarhafs til að stilla til friðar.
Þar fyrir utan er hugmyndin byggð á þeim misskilningi að svokallaðir spákaupmenn vinni eintómt óþurftarverk og best sé að losna við þá af mörkuðum. Þess vegna verði ríkið að beita sér. Þetta eru viðhorf sem Tobin tók upp eftir meistara sinn Keynes, en þeir voru báðir þeirrar skoðunar að hemja þyrfti markaðsstarfsemina. Það sem þeim yfirsást var að spákaupmenn þjóna margvíslegum nytsamlegum tilgangi. Nægir þar að nefna að þeir auka seljanleika á mörkuðum og auka líkur á því að á markaðnum séu ólíkar skoðanir, þ.e. að ekki séu allir að selja eða kaupa á sama tíma. Fátt er líklegra til að valda óróa á markaði en ef allir eru sömu skoðunar um að verð sé of hátt eða of lágt, en spákaupmenn minnka líkur á slíku með því að leitast við að hagnast á því að aðrir hafi rangt fyrir sér.