Það var sjálfsagt að fjalla ýtarlega um mál Árna Johnsen þegar þau komu upp á sínum tíma. Það var sjálfsagt að fela ríkisendurskoðun að fara yfir þau og það var eflaust góð og gild ástæða til að senda málin áfram til lögreglu til formlegar rannsóknar hjá henni. Það var svo sjálfsagt og eðlilegt að lögregla sendi gögn sín og niðurstöður til embættis ríkissaksóknara sem fer með ákæruvald í landinu. Það er sjálfsagt að ríkissaksóknari taki um það ákvörðun hvort, og þá fyrir hvaða hugsanlegu brot hann ákærir Árna Johnsen og eins fyrir hvaða háttsemi eru ekki efni til að ákæra. Ákveði ríkissaksóknari að gefa út ákæru þá er sjálfsagt og blasir við að dómstóll, væntanlega héraðsdómur Suðurlands, taki málið fyrir og kveði að því loknu upp sinn dóm, til sakfellingar eða sýknu eftir atvikum.
Þetta er það sem er sjálfsagt í málinu. Það sem er ekki sjálfsagt – heldur beinlínis stórundarlegt – er að einhverjir starfsmenn ríkislögreglustjórans taki upp hjá sjálfum sér að senda ekki aðeins niðurstöður sínar til ríkissaksóknara heldur einnig vægast sagt ýtarlega fréttatilkynningu til allra fjölmiðla nema Bændablaðsins þar sem niðurstöðurnar eru reifaðar og landsmenn upplýstir um það hve mörg brot lögreglan teldi hafa verið framin og við hvaða lagagreinar þær vörðuðu. Þá voru gefnar þær afvegaleiðandi upplýsingar að við yfirheyrslur hefði tiltekinn fjöldi manna haft réttarstöðu grunaðra, hvaða ályktanir fólk á svo sem að draga af því. Og þannig má áfram telja.
„Er þetta ekki bara eðlilegt? Á fólk ekki rétt á að fá að vita allt um svik og pretti þessa manns?“ spyr kannski einhver. Og til að svara þá slíkum manni: Nei, þetta er ekki eðlilegt. Fólk á ekki rétt á upplýsingum um mál sem aðeins eru á því stigi að lögregla hefur sent rannsóknargögn sín til ríkissaksóknara til meðferðar. Hver maður – Árni Johnsen eins og aðrir – sem er undir opinberri rannsókn sem hugsanlega verður fylgt eftir með ákæru, á rétt á því að hlutlaus aðili taki ákvörðun um mál hans án þess að vera undir sérstökum þrýstingi. Enda hefur lögreglu aldrei dottið í hug að senda frá sér slíkar fréttatilkynningar og framin var á dögunum. Menn sem eru grunaðir um morð og nauðganir þurfa ekki að sæta því að lögreglan faxi í ofboði á alla fjölmiðla niðurstöður sínar og kenningar. Það er engin ástæða til að gera lítið úr þeim hlutum sem Árni Johnsen er grunaður um, en átta menn sig raunverulega ekki á því hvað gerningur starfsmanna ríkislögreglustjórans er vafasamur og ógeðfelldur? Eða er kannski búið að gefa út formlegt veiðileyfi á þennan mann? Er endanlega búið að skipta íslensku þjóðinni í tvö lið, Árna Johnsen og rest?
Og talandi um þetta nýjasta afrek ríkislögreglustjórans þá má spyrja að einu. Um daginn var því slegið upp í fréttum að sama dag hafði ríkissaksóknari óskað eftir því við ríkisendurskoðanda að fá sent afrit af skýrslu ríkisendurskoðunar um forstöðumann þjóðmenningarhússins. Gott og vel, ekkert að því að ríkissaksóknari kynni sér skýrsluna og athugi hvort þar sé nokkuð sem kalli á afskipti embættis hans. En, hvernig í ósköpunum ratar þessi beiðni hans inn í alla fréttatíma örskömmu síðar. Hringir ríkissaksóknari í fjölmiðla og lekur þessari frétt? Hringir einhver á ríkisendurskoðun í ofboði á fjölmiðla í sömu erindagjörðum? Eða hlera einhverjir fjölmiðlar símann hjá ríkissaksóknara? Hvað af þessu sem er rétt, væri alvarlegur hlutur – alveg óháð því að ekkert er við það að athuga að ríkissaksóknari skoði þetta mál eins og hann telur þörf á.
Menn ætlast til og ímynda sér að stofnanir eins og ríkissaksóknaraembættið og ríkisendurskoðun séu helst aðeins stofnanir en ekki fullar af lifandi fólki af holdi og blóði. Þess vegna þykir fólki óþægilegt að vera minnt á að þar starfa lifandi menn sem hver og einn getur haft sitt eigið agenda.