Miðvikudagur 6. mars 2002

65. tbl. 6. árg.

Árið 1985 störfuðu 600 nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkisins. Árið 2000 voru nefndirnar, ráðin og stjórnirnar orðnar 910 og alls sátu í þeim 4.456 fulltrúar. Launakostnaður vegna þeirra var alls 417 milljónir króna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar. Af þeirri 51 nefnd sem Ríkisendurskoðun skoðaði sérstaklega voru 9 sem störfuðu ekki á árinu eða 18% nefndanna. Ríkisendurskoðun telur að leggja megi slíkar nefndir niður. Vef-Þjóðviljinn útilokar ekki að það sé rétt mat hjá Ríkisendurskoðun en telur engu að síður rétt að byrja á því að leggja hin 82% nefndanna niður. Í tilfellum sem þessum gildir nefnilega sú regla að því latari sem nefndarmenn ríkisins eru því betra.

Stór hluti launakostnaðar vegna þessara nefndarstarfa rann til starfsmanna ríkisins. Þ.e. til manna sem eru þegar á launum hjá ríkinu. Væntanlega eru þeir í mörgum tilfellum einmitt skipaðir í þessar nefndir vegna starfa sinna hjá ríkinu. Til dæmis má gera ráð fyrir að margir nefndarmanna séu „deildarstjórar“ (yfir sjálfum sér) í ráðuneytum sem málefni nefndanna heyra einmitt undir. Það er því beinlínis á verksviði þeirra að starfa með nefndinni. Það er því ekki nema von að ríkisendurskoðun velti því fyrir sér hvort rétt sé í öllum tilfellum að greiða starfsmönnum ríkisins sérstaklega fyrir að sitja í nefndum á vegum ríkisins. Og það er ekki síður áhugaverð spurning hvort nefndunum myndi fjölga jafnört ef embættismennirnir sem skipa þær fengju ekki greitt sérstaklega fyrir þær.

Nú er ekki ljóst á hvaða árum nefndunum fjölgaði svo mjög eða úr 600 í 910. Væntanlega kemur þessi fjölgun ýmsum á óvart, ekki síst þeim sem hrópa í angist yfir því að „allt sé falt“ og einkavæðing og „nakin markaðshyggja“ hafi ráðið för hjá ríkinu undanfarin árin. En einnig má spyrja hve margar væru stjórnirnar, nefndirnar og ráðin ef ekkert hefði verið einkavætt og skorið niður. Og hvað ætli þær væru margar ef Íslendingar væru farnir „að hafa áhrif“ á störf hinna óteljandi nefnda og ráða Evrópuríkisins? Ætli þær væru ekki eitthvað fleiri en 910?