Þriðjudagur 5. mars 2002

64. tbl. 6. árg.

Ríkissjónvarpið íslenska mun seint bregðast aðdáendum sínum. Nú nýverið efndi það til sérstakra Kúbudaga, þar sem sýndar voru ýmsar heimildar- og kvikmyndir frá og um þetta fallega og athyglisverða land og þjóðina sem þar býr. Margir þeirra, sem fylgdust með Kúbudögunum, töldu þó afar sérkennilegt, að í þessari miklu umfjöllun var vart hægt að finna nokkra gagnrýni á einræðisstjórn Fídels Kastró, sem þó hefur haldið þjóðinni í járngreipum í meira en fjóra áratugi, myrt, fangelsað og pyndað stjórnarandstæðinga í stórum stíl, hrakið hundruð þúsunda úr landi og leitt til efnahagslegrar stöðnunar og fátæktar landsmanna.

Ríkisútvarpið notar skyldugreiðslur almennings til að greiða fyrir einhliða áróðursmynd gegn aukinni hagsæld í heiminum.

Nú að loknum Kúbudögum þykir Ríkissjónvarpinu við hæfi að taka til sýningar sjónvarpsmynd eftir breska fréttamanninn John Pilger, þar sem fjallað er um hnattvæðinguna svokölluðu og áhrif aukinna alþjóðlegra viðskipta á ríki þriðja heimsins. Þátturinn, sem sýndur var í gærkvöldi, var kynntur rækilega dagana fyrir sýningu og sagður fréttaskýringaþáttur, en hefði frekar átt að auglýsa sem kynningarmyndband fyrir þau samtök, sem allt hafa á hornum sér varðandi hnattvæðinguna. Mátti af þættinum ráða, að fátækt í ríkjum þriðja heimsins ætti sér þær skýringar helstar, að alþjóðlegar lánastofnanir hefðu veitt þeim há lán og vildu fá þau borguð til baka, og að alþjóðleg stórfyrirtæki vildu setja þar upp starfsemi. Voru kallaðir til vitnis talsmenn nokkurra hópa, sem berjast gegn hnattvæðingu, og rætt við hagfræðinga hjá Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fengu þeir sem voru sammála málflutningi þáttarstjórnandans að halda ræður óhindrað, en stöðugt var gripið fram fyrir hagfræðingunum tveimur, enda var þeim stillt upp eins og sakborningum.

Í heild var málflutningur Pilgers afar einfeldningslegur og einhliða áróður gegn alþjóðlegum viðskiptum þar sem hver ósönn fullyrðingin tók við af annarri. Tæplega er unnt að eltast við alla vitleysuna sem þarna var sett fram, en þess í stað er ástæða til að staldra við nokkrar einfaldar spurningar. Í fyrsta lagi má spyrja, hvort ástandið í þriðja heiminum væri betra og fólk þar betur á vegi statt ef þar störfuðu engin fjölþjóðleg fyrirtæki, sem þangað hafa fært fjárfestingu og atvinnutækifæri, sem ekki væru þar ella. Þá má í öðru lagi spyrja, hvort efnahagur þessara ríkja væri betur staddur ef alþjóðlegar lánastofnanir hefðu alveg látið það ógert að veita lán til framkvæmda í löndunum. Í þriðja lagi er ástæða til að velta því fyrir sér, hvort frjáls viðskipti annars vegar eða einangrunar- og haftastefna í efnahags- og atvinnumálum hins vegar sé líklegri til að veita þessum ríkjum möguleika á betri lífskjörum. Í fjórða lagi má svo kasta fram þeirri spurningu, hvort einangrunarstefna eða opingáttarstefna í samskiptum þriðja heims ríkja við Vesturlönd sé líklegri til að stuðla að umbótum í stjórnmálum og auknum framgangi lýðræðis og mannréttinda.

Ekki skal því haldið fram hér að hnattvæðing og frjáls viðskipti þjóða á milli leysi öll vandamál þriðja heimsins þegar í stað. Hins vegar sýnir reynslan, að líkur á framförum og umbótum eru mun meiri þegar efnahagslegt frjálsræði ríkir og þegar samskipti við umheiminn eru mikil. Þetta má rökstyðja með fjölmörgum dæmum og liggur beinast við að líta til ríkja Asíu í því sambandi. Norður-Kórea er gott dæmi um ríki þar sem hnattvæðingunni hefur verið haldið í skefjum í áratugi með þeim árangri að þjóðin lifir við hungurmörkin (og stundum handan þeirra). Sunnan við landamærin, í Suður-Kóreu, býr þjóð af sama bergi brotin, sem talar sama tungumál og á sama menningarlega bakgrunn, við margfalt betri lífskjör, mun meira frjálsræði og allt aðra möguleika á að ná framförnum og aukinni hagsæld á komandi árum. Kannski á Ríkissjónvarpið eftir að sýna áhorfendum sínum heimildarmynd á næstunni um þessi lönd þar sem fram kemur raunhæfar samanburður á afkomu þjóða eftir því hvort þau búa við opið hagkerfi og hnattvæðingu eða ekki.