Það var eins og við manninn mælt. Eða kannski við kvenmanninn mælt. Fyrir örfáum dögum skildist mönnum að í gang væri að fara barátta milli Ingu Jónu Þórðardóttur og Björns Bjarnasonar um efsta sæti Sjálfstæðisflokksins við næstu borgarstjórnarkosningu í Reykjavík. Og nú á miðvikudaginn birtist flennistór auglýsing í Morgunblaðinu frá ótrúlegu fyrirbæri sem nefnt er „Ráðherraskipuð nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum“ þar sem lesendur voru allt í einu hvattir til þess að kjósa konur til metorða. Auglýsingin sýndi stóra mynd af óþekktri konu, á að giska um fertugt, og með fylgdu þessi spaklegu skilaboð: „Hún var ekki kjörin af því að hún er kona hún var kjörin vegna þess sem hún hefur fram að færa – en það hefur hún af því að hún er kona“.
Hvað á það eiginlega að þýða að í hvert sinn sem efnt er til kosninga eða prófkjörs, eða ef kjósa skal milli fólks til forystustarfa innan stjórnmálaflokka, að þá skipti ríkið landsmönnum í tvo hópa og hefji auglýsingaherferð gegn þeim frambjóðendum sem tilheyra öðrum hópnum? Hvað á það eiginlega að þýða að ríkið leyfi sér að halda úti sérstakri nefnd til þess beinlínis að minnka áhrif hálfrar þjóðarinnar á stjórn landsins? Á ekki ríkið frekar að láta það afskiptalaust hverja landsmenn kjósa sem fulltrúa sína á þing og í sveitarstjórnir? Nú getur hver og einn haft sína skoðun á því hvort nokkur tiltekin samsetning kjörinna fulltrúa er betri en önnur. Einhver kann að vilja fleiri konur á þing, annar álíka maður vill kannski fleiri karla á þing. Svo vill einhver kannski fá fleiri menn með háskólapróf og eflaust vilja ýmsir fá fleiri próflausa á þing. Eða fleiri bakara eða kafara. Fleiri fatlaða, unga menn eða aldraða. Hvernig færi ef hið opinbera færi að berjast fyrir einhverjum slíkum sjónarmiðum og þar með gegn öðrum?
Þeir sem sætta sig við að til sé „ráðherraskipuð nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum“, þeir hlytu að vera jafnsáttir ef nefndin héti „ráðherraskipuð nefnd um minni hlut karla í stjórnmálum“ – því þetta tvennt er augljóslega sami hluturinn. Og þeir sem sætta sig við nefnd eins og þessa, hvað ætluðu þeir að segja til varnar ef ríkið setti næst á fót og dældi peningum í „nefnd um aukinn hlut ungmenna í stjórnmálum“ eða „nefnd um aukinn hlut eldri borgara í stjórnmálum“? Ef ríkinu helst uppi að velja einn afmarkaðan hóp landsmanna og hygla honum til stjórnmálaframa á kostnað annarra, þá eru menn komnir inn á stórhættulega braut. Þá verður aðeins stigsmunur á en ekki eðlismunur ef ríkið gengur á lagið í þessum efnum og hver veit hvaða sjónarmið og kreddur verða þá látin ráða. Jafnvel þeir sem ímynda sér að nokkurt eitt kynjahlutfall kjörinna fulltrúa geti frá almennu sjónarmiði verið betra en annað, hljóta, ef þeir leggja sig fram, að átta sig á því að það er í hæsta máta óviðeigandi að virkja ríkið til að berjast fyrir þessu ímyndaða draumahlutfalli.
Á næstu vikum munu karlar og konur í öllum flokkum keppa sín á milli um að komast í vænleg sæti á framboðslistum flokka sinna. Og nær öruggt má telja að í höfuðborginni muni karl og kona kljást um embætti borgarstjóra. Sjá ekki allir menn að það er algerlega útilokað að réttlæta það að opinber nefnd noti opinbert fé til að hafa áhrif á gang þessara mála?