Þeir lesendur Vefþjóðviljans sem ekki láta sér nægja að lesa tölublað hvers dags heldur lesa áfram niður svo langt sem síðan endist, munu að lokum koma að lítilli setningu sem stendur ein og sér og án sérstakra tengsla við annað efni. Er þar um að ræða órökstudda fullyrðingu þess efnis að Vefþjóðviljinn hafi hafið göngu sína hinn 24. janúar 1997 og þar sem ekki er sérstök ástæða til að efast um sannleiksgildi þessarar staðhæfingar mun í dag svo komið að blaðið á fimm ára afmæli. Ekki mun það þó hafa sérstakan viðbúnað af því tilefni þó óþarfi sé að vísu að láta afmælisdaginn líða án þess að blaðið þakki lesendum sínum samfylgdina þessi ár. Ekki síst hugsar blaðið til þeirra lesenda sem hafa séð ástæðu til að skrifa því nokkur orð; sumir reyndar eingöngu til að þakka fyrir útgáfuna og aðrir ekki með annað erindi en að biðja aðstandendur aldrei þrífast. Hvor hópurinn um sig hefur lagt nokkuð að mörkum til að færa rök að því að blaðið eigi enn nokkurt erindi og er því rétt að minnast þeirra með sérstöku þakklæti. En vitanlega hafa flestir bréfritarar þó haft hug á því að ræða þau sjónarmið sem blaðið hefur haldið fram og hefur Vefþjóðviljinn ætíð lagt sig fram um að taka þau til vinsamlegrar athugunar.
Þá væri ómaklegt ef ekki væru færðar þakkir þeim vingjarnlegu lesendum sem hafa séð sér fært að létta blaðinu lífið með nokkrum fjárstuðningi. Kostnaður við útgáfuna og kynningu á henni er greiddur með frjálsum framlögum lesenda og er óvíst hvernig færi ef blaðið nyti ekki þessarar velvildar lesenda sinna. Blaðið vill því þakka þessum lesendum sínum sérstaklega og þá einnig þeim sem síðar kunna að bætast í þennan góða hóp og vill hógværlega vekja athygli á því að þeir sem vilja geta skráð sig til reglulegs stuðnings við blaðið, hver eftir sínum efnum og ástæðum, á sérstakri undirsíðu sem komast má á með því að smella á reitinn „Frjálst framlag“ hér til hliðar. Öll boð um þá síðu eru dulkóðuð.
Vefþjóðviljinn hefur haft fremur fá orð um almenna ritstjórnarstefnu sína og ekki haft nema mátulega mikinn áhuga á skilgreina sjálfan sig en meginskoðanir blaðsins munu vart hafa farið fram hjá lesendum. Til að gleðja þá lesendur sem deila þeim meginskoðunum með blaðinu – en ekki síður til þess að skaprauna hinum – má ef til vill nota þetta tækifæri til að geta þess að blaðið hyggst halda sínu striki og láta hvorki skipast við kvartanir né stór orð þeirra sem hugsanlega telja sig einhverra hluta vegna eiga heimtingu á því að Vefþjóðviljinn taki aðra afstöðu en hann hefur hingað til tekið til manna og málefna. Blaðið mun verða jafn óháð einstaklingum, flokkum og félagasamtökum og hingað til og ætíð taka afstöðu til mála eftir því sem hyggjuvit þess sjálfs hrekkur til.
Eins og sjá má mætir Vefþjóðviljinn lesendum sínum nú aðeins öðru vísi búinn en áður, en honum þótti hlýða að punta sig lítillega í tilefni dagsins. Þá er þess að geta, að héðan í frá er hægt með einföldum hætti að prenta einstök tölublöð út eða senda þau í tölvupósti til þeirra sem ekki eiga betra skilið. Þeir lesendur sem það vilja gera geta smellt á skipanir þess efnis sem nú má finna fyrir neðan hvert tölublað.
Á síðastliðnu ári gaf Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, út bókina Lögin, eftir franska hagfræðinginn Frédéric Bastiat og hefur hún verið boðin til sölu hér í blaðinu. Í tilefni dagsins verður hún í dag seld þeim sem vilja á helmings afslætti og fæst því á 750 íslenskar krónur fram til miðnættis í kvöld að íslenskum tíma. Þetta er tilboð sem flestir ættu að láta fram hjá sér fara – því upplagið myndi annars alls ekki nægja – en ekki allir. Þó útgefandinn segi sjálfur frá er þessi bók mikilvægt innlegg í þá hugmyndafræðilegu baráttu sem enn stendur. Baráttuna um það, hvort skipa skuli öllum málum með lögum og reglugerðum, hvort ríkið eigi að deila út verðmætum eða hvort hinn almenni maður megi njóta frelsis til orða og athafna og til að leita hamingjunnar eftir þeim leiðum sem hann sjálfur hyggur bestar. Vefþjóðviljinn hyggst taka í framtíðinni þá sömu afstöðu til þessara álitamála og hann hefur hingað til gert – og með þeim orðum þakkar hann lesendum sínum fyrir samfylgdina undanfarinn hálfan áratug.