Skoðanir og sjónarmið eru misvinsæl og þeir sem halda þeim fram fá misjafnar viðtökur. Sumir falla strax í kramið, margir vekja litla athygli og engin viðbrögð. Svo eru þeir sem virðast auðveldlega ná að raska ró fólks með skoðunum sem mörgum þykir umsvifalaust að séu ekki einungis heimskulegar heldur slík fásinna að það sé beinlínis ósvífni að bera þær á borð fyrir fólk. Einn slíkur er einn af þekktari útvarpsmönnum Bandaríkjanna, Larry Elder að nafni, sem hefur haldið fram ýmsum sjónarmiðum sem fá hárin til að rísa á höfði margra rólyndra manna.
Nýlega safnaði Elder saman tíu af þeim skoðunum sínum sem mesta ólgu og tilfinningasemi hafa vakið þegar þær hafa verið viðraðar opinberlega, og gaf þær út á bók undir nafninu The ten things you cant say in America. Kennir þar ýmissa grasa og þegar bókin er lesin þá er kannski ekki að undra að Larry Elder veki viðbrögð hér og þar. „Svartir eru meiri kynþáttahatarar en hvítir“ er fyrsta fullyrðing Elders og gleður ekki alla. „Hlutdrægni fjölmiðla er raunveruleg, hún er útbreidd og hún er eyðileggjandi“ er önnur og mun sennilega ekki auka umfjöllun fjölmiðla um bók Elders. „Stríðið gegn fíkniefnum er nýtt Vietnam-stríð. Við erum að tapa því líka“ segir Elder eins og ekkert sé sjálfsagðara. Bandarísk kvenréttindahreyfing fær einnig kveðjur frá Elder sem er ekki sannfærður um að heimurinn sé eins og forystukonur þar á bæ halda og Elder telur lítið fara fyrir samræmi eða heilindum í málflutningi og baráttuaðferðum þeirra.
Og þannig er bókin öll. Larry Elder leggur óhræddur til atlögu við ýmsar heilagar kýr og efast um fullyrðingar sem hver hefur tekið upp eftir öðrum eins og hverja aðra staðreynd. „Það er engin „krísa“ í heilbrigðiskerfinu“ segir hann og munu nú ekki allir kinka kolli við að lesa það. Nú, góðmennin sem vilja endilega hafa sem mestar hömlur á byssueign hins almenna borgara, Larry Elder segir að það séu þau sem hafi í raun blóð saklausra á höndunum og ekki er víst að Vesturlandabúar, sem flestir munu sannfærðir um að reglur um byssueign verði að vera afar strangar svo ekki verði allsherjarblóðbað, samþykki það umhugsunarlaust.
Mörgum þykir eflaust sem þessi upptalning sýni greinilega að margnefndur Elder sé augljóslega afglapi, ef ekki geðveikur – afsakið, geðfatlaður. Að minnsta kosti hljóti hann að hafa einhvern snert af ofsóknaræði auk þess sem það blasi við að hann sé forneskjulegur hvítur þrælahaldari úr suðurríkjunum. Gaman væri nú samt ef einhverjir þeirra sem líklega hugsa eitthvað í þessa veru, hættu á að verða sér út um bók Elders og létu reyna á það hvort röksemdir og dæmi hans fá einhverju breytt. Þeir kæmust þá kannski að því að Elder er ekki jafn æstur og ákafur og þeir hafa kannski talið. Þó hann telji til dæmis að greinileg vinstri slagsíða sé á stærstu bandarísku fjölmiðlunum, sjónvarpi og dagblöðum, þá dettur honum ekki í hug að þar sé á ferð nokkurt meðvitað samsæri vondra vinstri manna. Málið sé ekki það að fjölmiðlamenn séu af ásettu ráði að senda út og skrifa hlutdrægar fréttir. Þeir lifi einfaldlega í sínum eigin fjölmiðlamanna-heimi, og hann sé eins og hann er.
Og hvernig er hann? Bandarískir fjölmiðlamenn – einkum þeir sem starfa hjá sjónvarpi og blöðum – eru yfirleitt talsvert vinstra megin við miðju. Sama saga er víða um heim – og munu nú ýmsir reka upp ramakvein hér á landi yfir þessari fullyrðingu og þykja hún litlu betri en þær skoðanir Larrys Elders sem hér hafa nokkuð verið kynntar. Íslenskir fjölmiðlamenn eru nefnilega upp til hópa vinstri sinnaðri en gerist og gengur um hinn almenna mann, að minnsta kosti má gera því skóna að ef íslenskir fjölmiðlamenn hefðu einir kosningarétt að þá kæmu ekki svipaðar niðurstöður og úr almennum kosningum borgaranna. Svo rammt kveður meira að segja að þessu hér á landi, og svo vanir eru menn forræði vinstri sinnaðra fjölmiðlamanna, að því er jafnvel haldið fram í fullri alvöru að fjölmiðlar séu „lagðir í einelti“ ef einu sinni eða tvisvar eru ráðnir þangað menn sem grunaðir eru um að kjósa sama flokk og 40 % þjóðarinnar segjast styðja um þessar mundir.
En það er ekkert nýtt að fjölmiðlamenn séu annars staðar í pólitíska litrófinu en hinn almenni maður. Og það er heldur ekkert nýtt að þeir átti sig alls ekki því sjálfir. Larry Elder nefnir lítið dæmi. Þegar Bill Clinton var kjörinn forseti Bandaríkjanna fékk hann 43 % greiddra atkvæða. Í sömu kosningum kusu 89 % blaðamanna í Washington þennan sama Clinton. Og hve margir þeirra kusu frambjóðanda repúblikana? Það voru nú heil 7 %. Fjölmiðlamenn umgangast fjölmiðlamenn. Hvern þarf að undra að eitthvað brenglist þegar hópurinn sem segir heimsbyggðinni fréttirnar er þannig settur saman? Það þarf ekkert samsæri til.
Ekki eru hér tök á að reifa þær röksemdir eða þau dæmi sem Larry Elder nefnir til stuðnings sínum skoðunum. Hins vegar er óhætt að mæla með bók hans fyrir alla þá sem vilja láta hrista upp í sér af og til og vilja jafnvel kynna sér sjónarmið sem ekki er alltaf hampað í meginstraums-fjölmiðlunum. The ten things you cant say in America fæst meðal annars hjá amazon.com og kostar þar um 1.200 krónur