Það spurðist út á dögunum að fram eru komnir stjórnmálamenn hér á landi, nánar tiltekið í Reykjanesbæ, sem telja ekki endilega óhjákvæmilegt að skattgreiðendur beri ótakmarkaða ábyrgð á rekstri almenningsvagna og jafnvel megi nýta fé skattgreiðenda betur en að aka tómum hópferðabifreiðum, sem ranglega eru kenndir við almenning, um götur borga og bæja. Þetta eru nokkur og góð tíðindi enda ekki á hverjum degi sem sveitarstjórnarmenn telja ástæðu til að spara og hagræða í rekstri sveitarfélaga.
Það er heldur ekki oft sem hægt að er hrósa íslenskum sveitarstjórnarmönnum þegar kemur að samskiptum þeirra við íþróttahreyfinguna. En svo virðist sem nokkur ástæða sé til að hrósa bæjarstjórn Ísafjarðar fyrir þá ákvörðun hennar, sem kynnt var í gær, að bærinn taki ekki þátt í uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir landsmót ungmennafélaganna sem halda átti á Vestfjörðum árið 2004. Kostnaður bæjarins við þessa „uppbyggingu“ hefði numið „að lágmarki 200-300 milljónum króna“ og það þykir bæjaryfirvöldum heldur mikið. Að vísu taka þau fram að fram hafi komið að framlag ríkissjóðs til þessa málefnis yrði „aðeins“ að hámarki 45 milljónir króna svo það er ekki af tómri virðingu við hagsmuni skattgreiðenda í landinu sem bærinn dregur sig í hlé.
Þá kemur fram í sérstakri fréttatilkynningu frá bæjaryfirvöldum að bærinn muni halda áfram að styðja við íþróttahreyfinguna með beinum fjárframlögum og aðgangi að fjórum íþróttahúsum, fjórum sundlaugum og skíðasvæðum, svo ekki stendur til að hlífa ísfirskum útsvarsgreiðendum alfarið við því að vera gert að styðja íþróttamenn. En engu að síður ákváðu bæjaryfirvöld að hafna þessu nýja erindi og nefna sérstaklega að þau stefni að því að reka bæjarsjóð með afgangi. Þetta er lofsverð afstaða – þó hún ætti auðvitað að vera sjálfsögð og ekki fréttnæm – og bæjaryfirvöldum til sóma. Sérstaklega má hafa það í huga að kosningar nálgast og gott að einhverjir þora þá að rísa upp gegn íþróttamafíunni sem leggst eins og plága yfir sveitarstjórnir landsins og gerir gríðarlegar fjárkröfur á hendur varnarlausum borgurunum.
Þótt hér hafi oft amast við opinberum framlögum til menningarmála og yfirlætislegum kröfum menningarvitanna sem líta stórt á sig og sín áhugamál og niður á aðra og þeirra áhugamál, þá er ekki eins og það liggi beint við að hafa meiri samúð með heimtufrekjunni í íþróttaforystunni sem endalaust virðist getað heimtað betri hús, stærri velli og hærri „afreksstyrki“. Það er hins vegar einn hópur í landinu sem ástæða er til að hafa samúð með og eru það almennir borgarar, skattgreiðendur landsins sem aldrei virðast mega hafa fé sitt í friði fyrir sjálfsupphöfnum frekjum sem vilja að saklausir borgarar styrki þær til að sparka bolta, spila á fiðlu, semja bækur eða rembast á óperusviðinu.