„People of the same trade seldom meet together, even for the merriment and diversion, but the conversation ends in a conspiracy against the public, or in some contrivance to raise prices. It is impossible indeed to prevent such meetings, by any law which either could be executed, or would be consistent with liberty and justice. But though the law cannot hinder the people of the same trade from sometimes assembling together, it ought to do nothing to facilitate such assemblies; much less render them necessary.“
Tilvitnunin hér að ofan er úr Auðlegð þjóðanna eftir Adam Smith. Í skýrslu Samkeppnisráðs um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi sem kom út árið 1994 var fyrsta málsgrein tilvitnunarinnar notuð sem sérstakur rökstuðningur fyrir nauðsyn samkeppnislaga. Tveimur síðari málsgreinunum var sleppt enda segir Smith þar í raun að það sem Samkeppnisstofnun þykist vera að gera sé óframkvæmanlegt og andstætt frelsi og réttlæti. Starfsmenn stofnunarinnar notuðu þessa sérvöldu tilvitnun lengi vel í áróðri sínum fyrir eigin ágæti. Annað hvort hafa þeir ekki lesið bókina sem þeir voru alltaf að vitna í eða skrökvað þessu vísvitandi. Og þetta er ekki í fyrsta eða síðasta sinn sem starfsmenn Samkeppnisstofnunar hagræða sannleikanum.
Það er engu líkara en að Smith hafi séð fyrir hvernig starfsmenn Samkeppnisstofnunar haga sér gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum. Ætla mætti að hann hafi séð fyrir hvernig stofnunin hefur í raun tekið að sér stjórn fyrirtækja og bannað eigendum þeirra að ráðstafa eignum sínum að vild. Stofnunin hefur jafnvel úrskurðað að kaup á einu bakaríi sé óhagkvæmt fyrir annað bakarí. Já, það eru embættismenn á Íslandi sem óumbeðnir taka að sér að reikna út hversu hagkvæm kaup á bakaríum eru. Ef eigendur þeirra trúa ekki þeirri niðurstöðu Samkeppnisstofnunar að kaupin séu óhagkvæm getur hún einfaldlega bannað kaupin. Samkeppnisstofnun hefur hins vegar úrskurðað að ríkisstyrkir til nokkurra rithöfunda séu í góðu lagi þótt þeir séu augljóslega ósanngjarnir gagnvart þeim rithöfundum sem enga styrki fá. Samkeppnistofnun getur hvorki hreyft legg né lið þegar Ríkisútvarpið með alla sína ríkisstyrki og niðurgreiddu auglýsingar er annars vegar. Samkeppnisstofnun hefur heldur ekki haft neitt að segja um þær innflutningshömlur sem eru á grænmeti og öðrum landbúnaðarafurðum. Þrátt fyrir miklar æfingar stofnunarinnar gagnvart grænmetissölum er ástandið á þeim markaði óbreytt.
Smith hafði rétt fyrir sér. Samkeppnisyfirvöld gera ekkert gagn á frjálsum markaði. Það eina sem starfsemi þeirra hefur í för með sér er skerðing á frelsi almennings. Þegar Samkeppnisstofnun grípur inn í starfsemi fyrirtækja á frjálsum markaði eru hún í raun ekki að gera annað en að taka valdið frá neytendum. Neytendur beina viðskiptum sínum til þeirra sem bjóða besta verðið eða þjónustuna. Ekkert í heiminum er fullkomið. Frjáls keppni fyrirtækja á markaði er það ekki heldur en hún er besta leiðin til að virkja okkur til að uppfylla óskir hvers annars. Það hefur víða verið reynt að treysta opinberum starfsmönnum til að fullnægja síbreytilegum óskum neytenda um neysluvörur og þörfum fyrirtækja fyrir hráefni. Áætlunarbúskapurinn er hins vegar óframkvæmanlegur vegna þess að þekkingin er dreifð á meðal almennings og það er útilokað að safna henni allri á kontóra ríkisins. Hörmulegar afleiðingar af slíkum tilraunum ættu ekki að vera gleymdar. Engu að síður höfðaði hugmyndin um áætlunarbúskapinn til margra. Hugmyndin um „samkeppnisyfirvöld“ er byggð á sömu óskhyggju um alviturt stjórnvald sem sér í gegnum holt og hæðir og les hugsanir og óskir neytenda og framleiðenda.