Í kjölfar samkomulags ASÍ og SA fyrir viku gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu í sex liðum. Ýmislegt kom þar spánskt fyrir sjónir. Einkum þó þrír liðir af þessum sex.
„Ríkisstjórnin telur afar mikilvægt að áfram verði fylgt aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum.“
Ríkisútgjöld hafa aukist mjög á síðustu árum. Það eru því beinlínis vond tíðindi ef ríkisstjórnin ætlar að halda áfram á sömu braut. Það er beinlínis þörf á algjörum viðsnúningi í ríkisfjármálum. Í stað þess að leita að tekjum til að mæta vaxandi útgjöldum þarf að sporna gegn útgjaldaaukningunni.
„Ríkisstjórnin mun í samræmi við tillögur nefndar fulltrúa stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og bænda beita sér fyrir því að tollar á grænmeti verði felldir niður á nokkrum mikilvægum afurðum og í öðrum tilvikum lækkaðir verulega. Í staðinn verða m.a. teknar upp beingreiðslur til framleiðenda. Þessar ráðstafanir munu leiða til verulegrar lækkunar á grænmetisverði til neytenda og stuðla að lækkun verðbólgu.“
Við lestur á þessum boðskap ríkisstjórnarinnar hljóta menn að velta því fyrir sér hvort það sé staðreynd að skattgreiðendur eti ekki grænmeti eða öllu heldur að þeir sem eta grænmeti séu undanþegnir öllum sköttum. Það má að vísu segja að betra sé að hafa styrki til grænmetisframleiðenda sýnilega sem bein framlög úr ríkissjóði en dulda með innflutningshömlum. Kostnaður almennings minnkar samt ekki við þessa aðgerð. Þær grænmetisætur sem greiða skatta eru jafnsettar og áður.
„Gangi verðlagsmarkmið kjarasamninganna eftir mun ríkisstjórnin beita sér fyrir lækkun tryggingagjalds um 0,27%, eða úr 6% í 5,73%, á árinu 2003.“
Þetta væri kostuleg yfirlýsing ef hún væri ekki svo ósvífin. Hinn 1. janúar árið 2003 ætlar ríkisstjórnin að hækka tryggingagjaldið úr 5,23 í 6,00%. Ef til vill lítur þessi hækkun sakleysislega út en engu að síður hækkar skatturinn um 15%. Skatturinn leggst á allar launagreiðslur. Einhvern tímann á árinu 2003, kannski 2. janúar, ætlar ríkisstjórnin að lækka skattinn úr 6,00 í 5,73%. Hann mun þá hafa hækkað um tæp 10% á árinu 2003 – árinu sem ríkisstjórnin mun „beita sér fyrir lækkun tryggingagjalds“. Þetta mun í fyrsta sinn sem skattur lækkar með því að hækka úr 5,23 í 5,73%.