Mánudagur 26. nóvember 2001

330. tbl. 5. árg.

Með réttri "skipulagningu "má fá svona hús fyrir aðeins 3% af ráðstöfunartekjum verkamanna á mánuði.
Með réttri „skipulagningu „má fá svona hús fyrir aðeins 3% af ráðstöfunartekjum verkamanna á mánuði.

Þrátt fyrir að ekki hafi verið vitnað í þátt Kristjáns Þorvaldssonar Sunnudagskaffi á Rás 2 eftir að aðstandendur þáttarins hófu að auglýsa hann undir kjörorðunum „þáttur sem vitnað er í“ langar Vefþjóðviljann að rjúfa þagnarmúrinn með því að segja frá viðtali sem Kristján átti við Halldór Björnsson fyrrverandi formann stéttarfélagsins Eflingar í gær. En fyrst örlítið um félagið Eflingu. Efling er næst stærsta verkalýðsfélag landsins með um 16 þúsund „félagsmenn“ sem flestir hafa verið neyddir í félagið.

Í 2. grein laga Eflingar segir: „Tilgangur félagsins er sá að efla og styðja hag félagsmanna og menningu og stuðla að því að verkafólk taki virkan þátt í stjórnmálum lands og sveitarfélaga í þágu hagsmuna þess. Félagið skal kappkosta að ákveða vinnutíma, kaupgjald, vinnuskilmála, tryggja öryggi við vinnu og vinna að öðrum hagsmunamálum verkafólks með því að skipuleggja innan félagsins allt það verkafólk sem starfar á félagssvæðinu…“. (Feitletrun er Vefþjóðviljans.)

Efling hirðir með einum eða öðrum hætti um 2,5% af launum „félagsmanna“ sinna auk þess sem félagsmenn eru flestir neyddir til að greiða lífeyrissjóði félagsins 4% af launum sínum. Fiskverkamaður sem Efling „skipuleggur“ með 84.450 króna laun á mánuði eftir 7 ára starf hjá sama fyrirtæki greiðir Eflingu því um 2.100 krónur á mánuði í félagsgjöld, orlofssjóð og fleira. Greiðslan til Eflingar er því um 3% af ráðstöfunartekjum.

Í 4. grein laga Eflingar segir: „Sá sem vill verða félagsmaður skal senda eða afhenda á skrifstofu félagsins inntökubeiðni undirritaða með eigin hendi á þar til gerðu eyðublaði og er hann þá fullgildur félagsmaður og á rétt á félagsskírteini að því tilskyldu að hann uppfylli skilyrði 3. gr. og hafi greitt félagsgjöld í þrjá mánuði.“
Já, þeir sem vilja verða félagar í Eflingu þurfa að greiða 3 mánuði fyrirfram. Einhver kann nú að halda að kjósi viðkomandi ekki að vera félagi í Eflingu þurfi hann ekki að greiða 2,5% af heildarlaunum sínum til félagsins og fái jafnvel þessi félagsgjöld í 3 mánuði endurgreidd. Nei því er ekki að heilsa. Þeir sem lenda í ákveðinni vinnu á „félagssvæði“ Eflingar verða að greiða til félagsins hvort sem þeim líkar betur eða verr. Ef þeir vilja ekki koma niður í fátækleg húsakynni félagsins við Sætún og undirrita eigin hendi inntökubeiðni í félagið njóta þeir ekki réttinda sem félagsmenn. Svona „skipuleggja“ verkalýðsrekendur verkafólkið innan félagsins.

Nú mætti ætla að félag sem beitir menn slíkum fantabrögðum veldi sér til forystu menn sem væru ekki mjög hrifnir af því að blanda félaginu í flokkspólitísk átök. Úr því að menn væru skikkaðir til aðildar að félaginu væri það ef til vill ekki betra að hafa menn í forystu sem einhverjum þætti verra að styðja með hluta af launum sínum þar sem hann væri á öndverðum meiði í stjórnmálum.

Í fyrrnefndu viðtali á Rás 2, sem nú verður vitnað í, kom hins vegar fram hjá Halldóri Björnssyni fyrrum formanni félagsins og varaforseta Alþýðusambands Íslands að hann teldi það mikilvægt að félagið styddi pólitískan flokk. Orðrétt sagði Halldór: „Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að við eigum að styðja við bakið á pólitískum flokki ef við getum treyst honum.“
Nú er bara að vona að allir sem „skipulagðir“ hafa verið í félag Halldórs og um leið í Alþýðusamband Íslands og greiða þeim þar með félagsgjöld séu ánægðir með pólitíska flokkinn sem hann hefur getað treyst.