Magnús Ásgeirsson yfirbókavörður var afkasta- og áhrifamesti ljóðaþýðandi Íslendinga á síðustu öld. Með þýðingum sínum hafði hann ómæld áhrif á þróun íslenskrar ljóðlistar enda veitti hann íslenskum skáldum nýja sýn til framandi menningar. Magnús var einnig áhrifamikill sem annar ritstjóra tímaritsins Helgafells en þess rits og hins ritstjórans, Tómasar Guðmundssonar, hefur stundum verið getið áður í Vefþjóðviljanum. Í tímariti sínu setti Magnús eitt sitt fram hugmynd um myndun ráðuneyta:
„Hugmyndin er í stuttu máli sú, að gerð verði á stjórnarskránni breyting, sem af leiði, að ný ríkisstjórn skuli jafnan mynduð fyrir alþingiskosningar en ekki upp úr þeim, og séu því ávallt tvö eða fleiri framboðsráðuneyti raunverulega í kjöri við almennar þingkosningar um leið og frambjóðendur stjórnmálaflokkanna. Þessi hugmynd er hugsuð svo, í fáum, lauslegum dráttum, að stuðningsflokkur eða flokkar ríkisstjórnar í lok kjörtímabils, eða að minnsta kosti aðalstuðningsflokkar stjórnar, styðjist hún við bandalag flokka, sé jafnan skyldur, að viðlögðum missi framboðsréttar, að leggja fram, nokkru áður en framboðsfrestur er út runninnm lista með nöfnum ráðherraefna, sem reiðubúnir skulu og skyldir til að taka við stjórn landsins þegar eftir kosningar, ef flokkurinn hefur til þess þinglega aðstöðu. Vitanlega getur stjórnarflokkurinn boðið fram þennan lista í bandalagi við annan flokk eða flokka. Andstöðuflokkum stjórnarinnar verði hins vegar í sjálfsvald sett, hvort þeir fara eins að (þ. e. leggja fram ráðuneytislista) hver í sínu lagi, tveir, fleiri eða allir í bandalagi. Komi enginn slíkur listi fram frá neinum andstöðuflokki né samtökum þeirra, verði kosningum frestað um eitt ár, ráðuneytislisti stjórnarflokksins sjálfkjörinn á Alþingi þann tíma og áfram, meðan aðrir listar koma ekki fram á ársfresti.“ |
Nú þarf enginn að láta sér detta í hug að þessi hugmynd verði framkvæmd. En þó hún sé kannski ekki sérstaklega raunhæf og hreint ekki gallalaus, þá er hún ekki endilega vitlausari en mörg önnur. Og hver segir svo sem að það sé eðlilegt að flokkar gangi alltaf til kosninga „með óbundnar hendur“ og kjósendur fái ekki að vita fyrr en eftir kosningar hverjir starfa saman, hverjir verða ráðherrar og hverjir ekki? Og að með sama hætti komi aldrei fram hvað stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu gert ef þeir hefðu komist til valda.
Og þar sem þessi hugmynd er nú svona og svona, þá er ekki nema mátulega sanngjarnt að hún sé það eina sem Vefþjóðviljinn rifjar upp í dag, á hundrað ára afmæli ljóðaþýðandans Magnúsar Ásgeirssonar. En hver segir að heimurinn sé alltaf sanngjarn?