Fimmtudagur 8. nóvember 2001

312. tbl. 5. árg.

Í titli nýrrar bókar sinnar varpar Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor fram spurningunni: Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi? Eins og vænta má af Hannesi hefur hann einnig svör á reiðum höndum og fylla þau þessa 160 síðna bók sem kom út í síðustu viku.

Í fyrsta kafla bókarinnar hafnar Hannes nokkrum viðteknum skýringum á auðlegð þjóða. „Ein hin algengasta er, að vísindaleg þekking og verklegar framkvæmdir valdi mestu um það. En væri sú skýring rétt, þá hefðu Kínverjar og Serkir (Arabar), sem komnir voru á sínum tíma langt fram úr Evrópumönnum í vísindum og verklegum efnum, átt að verða ríkir á undan þeim, sem þeir urðu ekki. Annar galli á þessari skýringu er, að auðveldara hefur reynst að flytja þekkingu og kunnáttu í ýmsum verklegum efnum til Þriðja heimsins á okkar dögum en að örva þar hagvöxt. Vitaskuld breyta vísindaleg þekking og verklegar framfarir einhverju um hagvöxt, en geta bersýnilega ekki ráðið úrslitum um hann.“ Hannes bendir einnig á að mörg dæmi séu um að lönd séu rík án þess að ráða yfir miklum náttúruauðlindum. Nægi þar að nefna Sviss, Japan og Hong Kong. Jafnframt megi benda á að ýmsar fátækar þjóðir hafi aðgang að miklum náttúruauðlindum. Hannes hafnar einnig þeim skýringum að hugarfar (græðgi) ráði mestu um efnahag manna enda séu prangarar til um allan heim. Gróðafíknin skipti minna máli en skilyrðin til að veita henni útrás. Þá aftekur höfundur jafnframt að arðrán, hvort sem er innanlands eða í nýlendum, séu lykillinn að velmegun. Almenningur á Vesturlöndum þurfi ekki að kvarta undan kjörum sínum þótt þar séu vissulega einnig vellauðugir menn. Hagvöxtur hafi verið einna mestur í þeim löndum sem mest viðskipti eiga við Vesturlönd eins og Hong Kong og Singapore. Og ef viðskipti við Vesturlönd eru slæm fyrir fátækar þjóðir hefði Kúba átt að verða sæluríki vegna viðskiptabanns Bandaríkjanna.

En hvað er það þá sem gerir þjóðir ríkar? Í öðrum kafla bókarinnar rekur Hannes hvernig viðskiptafrelsi og velmegun haldast í hendur. Styðst hann ekki síst við hina svonefndu Frelsisvísistölu sem notuð er til að gefa efnahagslegu frelsi í yfir 120 ríkjum heims einkunn. Ísland var í 15. sæti á þessum lista árið 1999 með einkunnina 8,0 en Hong Kong var í 1. sæti með 9,4.  Almennt virðast atvinnufrelsi og hagsæld fylgjast að. Atvinnufrelsi á sér þó fleiri fylgifiska en ríkidæmi. Í löndum með mikið atvinnufrelsi er minni tekjumunur. Aukið atvinnufrelsi og betri aðgangur að heilbrigðisþjónustu fara einnig saman.

Ísland er sem fyrr segir í 15. sæti og eitt ríkasta land í heimi, nánar tiltekið í fimmta sæti yfir þjóðarframleiðslu á mann. Er það ekki ágætt? Jú, líklega, en Hannes segir enga ástæðu til að láta staðar numið. Ísland geti hæglega orðið ríkasta land í heimi. Í fimmta og sjötta kafla bókarinnar lítur hann til fordæmis Lúxemborgar og Írlands og til sjö lítilla eylanda, Ermasundseyja, Manar í Írlandshafi, kóraleyjaklasans Bermúda, Bahama, Bresku jómfrúreyja og Cayman eyja. En þessi lönd eiga það öll sammerkt að hafa bætt stöðu sína verulega með markvissum aðgerðum.

Írar hafa til dæmis tæpum á áratug aukið landsframleiðslu sína á mann úr 71% af meðaltali Evrópusambandsins í 103%. Þetta hefur þeim tekist með því að lækka skatta og laða þannig til sín fyrirtæki og fjárfesta. Lúxemborgarar er ríkasta þjóð heims enda bjóða þeir upp á afar hagstæð skilyrði fyrir fjármálastarfsemi. Um stefnu þessara þjóða segir Hannes (bls. 110): „Báðar gera þær allt, sem í þeirra valdi stendur, til að laða til sín fyrirtæki og fjármagn, og um það er almenn samstaða stjórnmálaflokka í löndunum tveimur. Ráðið til þess hefur reynst einfalt: lágir skattar á fyrirtæki, frjáls utanríkisviðskipti og hagstæð skilyrði til atvinnurekstrar.“ Hannes spyr  hvers vegna Íslendingum ætti ekki að takast að verða fjármálamiðstöð eins og smáeyjunum sjö. Ekkert virðist því til fyrirstöðu – ef við lækkum skatta.

Í lokakafla bókarinnar Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi? bendir Hannes á að allir stjórnmálaflokkar ættu að geta sammælst um þessa leið. Þeir sem vilja ekki minnka margvíslega opinbera þjónustu sem kostuð er af skattfé ættu ekki síst að styðja þessa leið. Það er hægt að ná í meiri skatttekjur með minni skattheimtu. Þessu til stuðnings birtir Hannes töflu (bls. 144) sem sýnir tekjur ríkisins af tekjuskatti fyrirtækja frá 1992 til 2000 ásamt þróun skatthlutfalls á sama tíma. Þeir sem vilja meira fé í velferðarþjónustuna ættu ekki síður að gleðjast yfir þessari þróun en þeir sem vilja lægri skatta.

Ár Skatthlutfall, % Skatttekjur í milljónum á verðlagi ársins 2000
1992 45                                                     5.198    
1993 39                                                     4.666    
1994 33                                                     4.966    
1995 33                                                     5.901    
1996 33                                                     5.840    
1997 33                                                     6.710    
1998 33                                                     8.246    
1999 30                                                    10.194    
2000 30                                                    10.318