Miðvikudagur 7. nóvember 2001

311. tbl. 5. árg.

Bændur sem fara illa með vinnuhjú sín þurfa stundum að sætta sig við að þau fari á næsta bæ þar sem betri vist býðst. Þeir eiga það jafnvel á hættu að engin kæri sig um að starfa fyrir þá. Þeir eiga því tvo kosti. Annars vegar geta þeir reynt að sannfæra aðra bændur um að gera álíka illa við vinnufólk sitt svo þeir líti betur út í samanburðinum. Hins vegar geta þeir bætt ráð sitt og gert betur við fólkið sitt.

Á undanförnum árum hafa Evrópusambandið og OECD tekið fyrri kostinn. Ýmis ríki innan ESB og OECD eiga undir högg að sækja í samkeppni um fólk, fé og fyrirtæki vegna hárra skatta. Þessi ríki hafa því, að frumkvæði Frakklands og Þýskalands, beitt sér fyrir því að ESB og OECD taki upp baráttu gegn „skaðlegri skattasamkeppni“. Það sem í raun er átt við með því að uppræta „skaðlega skattasamkeppni“ er að önnur ríki hækki einnig sína skatta og veiti skattyfirvöldum annarra landa greiðan aðgang að upplýsingum um sparisjóðsbækur manna og önnur fjármálaumsvif. Baráttan gegn „skaðlegri skattasamkeppni“ snýst því um að öll ríki taki sig saman um að leggja háa skatta á almenning og afnemi alla persónuvernd ef fé er annars vegar.

Það er að sjálfsögðu ekki einhugur um þessar aðgerðir gegn „skaðlegri skattasamkeppni“ innan OECD enda eru þar innanborðs ríki sem aðgerðirnar ættu að beinast gegn, eins og Sviss og Lúxemborg. Aðgerðir OECD beinast þó fyrst og fremst að fátækum ríkjum í Afríku og Karabíska hafinu en ekki Sviss, Lúxemborg, Írlandi, Hollandi, Rússlandi og Bandaríkjunum sem samkvæmt skilgreiningu OECD veita háskattaríkjum Evrópusambandsins „skaðlega skattasamkeppni“. Enn sem komið er þora ESB og OECD ekki til við virðulegri ríki innan samtakanna og verða því að láta sér nægja að tukta fátækar þjóðir við miðbaug til. Þetta nefndi einn fyrirlesara á ráðstefnu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem haldin var á föstudaginn, „nýlendustefnu í fjármálastarfsemi“.

Á ráðstefnu þessari sem bar yfirskriftina „Tax Competition: An Opportunity for Iceland?“ var rætt um þá möguleika sem felast í því fyrir Íslendinga að bjóða hagstæð skilyrði fyrir fjárfesta og fyrirtæki. Til að ræða þetta mál var fenginn án annan tug erlendra og innlendra fyrirlesara sem allir hafa rætt og ritað um skattamál, bankaleynd og áhrif þessara þátta á efnahag þjóða. Að því frátöldu að allir fyrirlesararnir töldu Íslendinga eiga mikla möguleika á að laða til sín fé og fjölga atvinnutækifærum með því að bjóða upp á lága skatta vakti það sérstaka athygli hve illt orð fyrirlesurunum lá til Evrópusambandsins. Fúllyndi ESB gagnvart hagstæðri skattastefnu Íra, Lúxemborgara og jafnvel Englendinga, að ekki sé minnst á fátækar þjóðir í suðri, er ekki beint lokkandi fyrir ríki sem vilja halda þeim möguleika opnum að verða alþjóðlegar fjármálamiðstöðvar.