Augljóst er að kosningar eru að nálgast, því R-listinn hefur ákveðið að nýta ekki alla hugsanlega möguleika sína til að hækka skatta á borgarbúa. Einn forsprakki listans, Helgi Hjörvar skattgreiðandi, lýsti því hátíðlega yfir fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar að forgangsverkefni R-listans yrði „lækkun gjalda á Reykvíkinga“. Þetta var fyrir kosningar. Eftir kosningar hækkuðu Helgi, Hrannar og aðrir skattgreiðendur R-listans skatta og gjöld á Reykvíkinga, þar á meðal útsvar um einn milljarð króna. Fyrri afrek R-listans í skattamálum er til að mynda holræsagjaldið svokallaða, sem þeir tóku upp eftir að þeir komust til valda eftir kosningarnar 1994. Stjórnartíð R-listans hefur verið ein samfelld skattahækkun á sama tíma og ríkið hefur lækkað skatta. R-listinn hefur jafnvel verið svo ósvífinn að þegar ríkið hefur lækkað tekjuskattshlutfall sitt hefur hann hækkað útsvarið og þannig étið upp þá skattalækkun sem launafólk í Reykjavík hefði annars fengið.
Fyrir kosningar er þetta þó ekki það sem kjósendur mega hafa hugann við og þess vegna lofar R-listinn skattalækkun fyrir kosningar en svíkur loforðið svo eftir þær. Og nú er sem sagt komið að því að kjósendur eiga að trúa því að R-listinn sé að fara að lækka skatta í borginni. Þessi „skattalækkun“ er reyndar algert einsdæmi og skemmtileg fyrir þær sakir. Meirihluti „lækkunarinnar“ felst í þeirri ákvörðun borgarráðs að nýta ekki heimild í lögum til að hækka útsvar um 0,3%, en sú hækkun hefði skilað borgarsjóði 600 milljónum króna. Þarna gerir R-listinn borgarbúum sem sagt þann greiða að hækka útsvar ekki alveg upp í topp – en útsvarið er í toppi á þessu ári eftir ítrekaðar hækkanir R-lista – og telja það sérstakt afrek sem tilkynna þurfi um og líta á sem lækkun.
Óhætt er að segja að skattheimtumennirnir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Helgi Hjörvar og Hrannar B. Arnarsson hafa gengið býsna langt í nýrri álagningu hingað til þegar það að fullnýta ekki allar heimildir til skattlagningar telst til skattalækkunar. Eða skyldi ekki einhverjum þykja skrýtið ef ríkisstjórnin lýsti því yfir að hún hefði ákveðið stórfellda skattalækkun sem fælist í því að tekjuskattur yrði ekki hækkaður. Það verður fróðlegt að sjá hvort R-listanum tekst að selja fjölmiðlamönnum þessa nýstárlegu gerð af skattalækkun.