Það er alltaf verið að dæma menn. Fólk brýtur svo mikið af sér núorðið að ríkið hefur vart undan að dæma menn til refsingar. Menn svíkja og pretta, sumir lemja mótstöðumenn sína, aðrir stela öllu steini léttara. Einhverjir skila ekki vörslusköttum. Allir eru þessir menn dæmdir fyrir glæpi sína. Sumir fara í fangelsi, margir þurfa að greiða sektir eða setjast í borgarstjórn. Þessi afbrot eru algeng og vekja sjaldnast mikla eftirtekt. En stundum koma fram nýir afbrotamenn og ný fólskuverk sem vekja óhug meðal friðsamra borgara. Á dögunum var til dæmis maður nokkur ákærður og dæmdur, réttilega gefið að sök að hafa í blaðaviðtali sett fram sjónarmið sem ríkinu líkaði ekki.
Allt frá því útgáfa Vefþjóðviljans hófst hefur blaðið leyft sér að geta þess að þrátt fyrir að nafn blaðsins kunni að benda til annars, þá er það nú samt svo, að það eru einungis einstaklingar sem hafa vilja. Þjóðir vilja hvorki eitt né annað. Vefþjóðviljinn er semsagt ekki mikið fyrir hóphyggju. Vefþjóðviljinn hefur frá fyrsta degi hafnað því að heil þjóð geti haft aðeins einn vilja, eina skoðun og eina skapgerð. En það er með þessa skoðun Vefþjóðviljans eins og margar aðrar: það eru til menn sem eru þeim beinlínis ósamþykkir! Ýmsir eru til dæmis þeirrar skoðunar að hægt sé að dæma einstakling eftir því hvaða þjóð hann tilheyrir, af hvaða þjóðflokki hann er eða jafnvel eftir því hvernig húðin á honum er á litinn. Og um daginn viðraði einn slíkur maður sumar skoðanir sínar á þessu efni og hefur nú verið dæmdur til refsingar fyrir tiltækið.
Maður þessi, Hlynur Freyr Vigfússon sjómaður, er þeirrar skoðunar að hvorki þurfi snilling né erfðafræðivísindamann til að sýna mun sem sé á Afríkunegra með prik í hendinni eða Íslendingi, svo notað sé orðalag hins dæmda. Hlynur álítur að Afríkubúar gætu framleitt mun meira af matvælum en þeir gera, ef þeir nenntu því. Íslendingar búi hins vegar á grjóthnullungi, hafi fátt nema fisk og klaka, en hafi það stórfínt á sama tíma og þeir í Afríku nenni ekki að berja af sér flugurnar.
Þannig er það nú, að mati Hlyns Freys Vigfússonar. Og hann hefur nú verið dæmdur til refsingar fyrir að greina í blaðaviðtali frá því að hann hafi þessi sjónarmið. En þó fæstir muni vera sammála Hlyni um þessi málefni, þá er ekki þar með sagt að ástæða sé fyrir fólk að fagna dóminum yfir honum. Mun meiri ástæða er nefnilega fyrir fólk að hafa áhyggjur af þessum dómi, lögunum sem hann er sagður byggja á og þróuninni sem nú er væntanlega hafin. Eða hvað? Er bara allt í lagi að ríkið gangi lengra og lengra í því að skipta skoðunum fólks í æskilegar skoðanir og óæskilegar? Og dæmi menn í sektir og fangelsi fyrir að halda fram þessum óæskilegu?
Þegar svo er spurt, fara að vegast á tvenn grundvallarmannréttindi: rétturinn til að tjá og berjast fyrir skoðunum sínum og rétturinn til að vera látinn í friði. Þó Vefþjóðviljinn sé mjög hlynntur tjáningarfrelsi þá kann að vera að réttmætt að því séu settar skorður. Menn geta gengið svo nærri æru annarra að það hljóti að verða refsivert enda getur árás á æru manns orðið honum álíka þungbær og árás á áþreifanlegri hagsmuni. Tjáningarfrelsið veitir mönnum ekki rétt til að bera menn alvarlegum sökum eða vega að æru þeirra að óþörfu. Eins getur af öryggisástæðum verið réttlætanlegt að takmarka tjáningarfrelsi þeirra sem hvetja til ofbeldis eða annarra afbrota. En þegar æruvernd og almennu öryggi sleppir, þá telur Vefþjóðviljinn að tjáningarfrelsið hljóti að hafa vinninginn umfram höftin og refsigleðina.
Hlynur þessi, sem nú er dæmdur afbrotamaður, hann semsagt lét í ljós þá skoðun að auðsær munur væri á Afríkunegra með prik í hendi og hinum dæmigerða Íslendingi. Og mun ekki hafa talið muninn vera þeim svarta í hag. Vefþjóðviljinn leyfir sér að halda því fram, að það sé afar langt gengið að dæma menn til refsingar fyrir slíkar athugasemdir. Ekki bara það, meira að segja dómarinn í málinu tekur fram að ummælin, sem hún þó dæmir manninn fyrir að viðhafa, séu „ekki gróf eða mjög alvarleg“. Hins vegar segir í dómnum, að Hlynur sé varaformaður í svokölluðu Félagi íslenskra þjóðernissinna sem berjist fyrir því að innflutningur á fólki, af öðrum uppruna en evrópskum, til Íslands verði stöðvaður, og segir dómarinn að við mat á ummælunum verði að skoða þau „í þessu samhengi“.
Þetta þýðir á mæltu máli að einhver allt annar maður hefði hugsanlega komist upp með nákvæmlega sömu ummæli. Maður sem hefði skrifað í blöðin og tekið undir með Hlyni Frey, hann hefði kannski verið sýknaður en Hlynur dæmdur. Þetta er sérstakt, ekki síst þegar litið er til þess að ekki er annað vitað en þetta ógnvekjandi „Félag íslenskra þjóðernissinna“ séu þrjú systkini og víst faðir þeirra líka. Að vísu má næstum því segja það sama um „Frjálslynda flokkinn“ en hann á þó tvo þingmenn. Hvað um það, það að taka ákærða menn mun þyngri tökum við það eitt að þeir tilheyri örfámennum furðusamtökum, það er nú kannski ekki akkúrat það sem menn ætlast til af dómstólunum, eða hvað?
En eins og dómari málsins sagði, þá eru hin refsiverðu ummæli hvorki gróf né alvarleg. Þau eru bara refsiverð. Í rökstuðningi fyrir niðurstöðunni segir dómarinn eitt og annað sem ástæða væri til að staldra við. Meðal þess má nefna að dómarinn slær því föstu að fortakslaust niðrandi sé að tala um „negra“. Það er nú eins og það er. Svo skemmtilega vill til, að í Svíþjóð – og er hún ekki veikasta vígi hins pólitíska rétttrúnaðar – var í fyrra tekist á um það atriði. Sænska vísindaakademían var kvödd til álits og gaf út þá skoðun að orðið „negri“ væri hlutlaust orð um „svartan“ mann en hins vegar væri niðrandi að kalla menn „niggara“, en á þessu tvennu væri mikill munur. En Héraðsdómur Reykjavíkur er semsagt annarrar skoðunar og verður fróðlegt að vita hvort ákæruvaldið lætur nú kné fylgja kviði og ákærir alla þá sem kalla svarta menn negra. Og munu þá ýmsir verða fyrir refsivendinum.
Í einni af endurminningabókum sínum, Úngur eg var, sem út kom á síðari hluta áttunda áratugar tuttugustu aldar, lýsir Halldór Laxness klæðaburði Dana svo: „Síðar tóku þeir upp þá heimstísku sem varð til í víetnamstríðunu, að úngar stúlkur af betra fólki fóru að gánga í þesskonar bláum verkamannabuxum úr svonefndu nankini, og verið höfðu larfar svarta námuþræla í Bandaríkjunum í kríngum síðustu aldamót; en karlmenn að láta sér vaxa dömuhár à la Jesus ellegar gera sér blásið hár, afrófrísúru, af einhverri siðferðilegri þörf til að sleikja upp negra.“ Ef það eiga allt í einu að verða viðurkennd sannindi að „negri“ sé niðrandi og refsivert orð, þá ættu Helgafellsmenn kannski að fara varlega í endurprentunum.
Og fleira mun væntanlega að verða refsivert. Ef það á að vera óheimilt að telja ónafngreinda menn í framandi heimsálfu lata, þá má dæma menn fyrir margt. Tökum dæmi: ef maður segir að Vestfirðingar séu kverúlantar sem gætu lifað góðu lífi af sjávarútvegi ef þeir hefðu getað unnið eftir kvótakerfinu frá því það var lagt á, í stað þess að vera alltaf upp á kant við allt og alla, – hvað þá? Væru slík ummæli eitthvað betri? Mætti ekki segja um þau það sama og segir í margræddum dómi, að þau séu „röng og niðrandi alhæfing“ og „einnig háðsk og fávísleg“? Já, og hvað með blaðamanninn sem skrifaði í síðustu viku að Íslendingar væru „snobbaðir fram í fingurgóma en [vissu] fátt um almenna kurteisi og góða mannasiði.“ Eru þessi ummæli ekki „röng og niðrandi alhæfing“? Eru þau ekki bæði „háðsk og fávísleg“? Þau eru meira að segja að því leyti alvarlegri en spekin úr Hlyni Frey Vigfússyni, að þau komu í raun fyrir augu þess fólks sem þau beindust gegn. Gamanlaust, eftir sakfellingu Hlyns Freys Vigfússonar er ríkissaksóknari nauðbeygður til að gefa út ákæru vegna þessara ummæla. Ríkissaksóknari hefur sagt a, og verður nú að fara stafrófið á enda.