Föstudagur 2. nóvember 2001

306. tbl. 5. árg.

Vei þeim er lækka verðið – ef aðrir gera það líka. Eitthvað á þessa leið hljómar kenning þeirra sem telja enga samkeppni í sölu ýmsum vörutegundum sem seldar eru hér á opnum markaði. Nýjasta dæmið sem stuðningsmenn þessarar kenningar telja henni til framdráttar er verðlækkun íslensku olíufélaganna á bensíni í gær. Eitt félagið tilkynnti lækkun og hin fylgdu í kjölfarið og lækkuðu um sömu krónutölu. Sko þetta er ekki samkeppni, er því hrópað. Hvað ef hin félögin hefðu ekki lækkað eins og það sem reið á vaðið heldur haldið óbreyttu verði eða hækkað verð? Væru neytendur betur settir með það?
Samkvæmt fyrrnefndri kenningu skiptir það öllu máli að seljendur olíu bjóði ekki sama verð, verðið sjálft skiptir minna máli. Nú er það reyndar svo að líklega eru um 5 til 10 mismunandi verð í gangi á bensíni á höfuðborgarsvæðinu og munur á hæsta og lægsta verði er mjög hátt hlutfall af innkaupsverði og enn hærra hlutfall af álagningu. Hlutfallslegur munur á hæsta og lægsta útsöluverði er hins vegar ekki mjög hár þegar ríkið hefur lagt alla sína skatta og gjöld á vökvann. Það er stórmerkilegt hvað ýmsir neytendafrömuðir hafa miklar áhyggjur af tryggingafélögum og olíufélögum sem starfa á opnum markaði, þar sem allir geta keppt, á meðan innflutningsbann og aðrar samkeppnishindranir eru alls ráðandi í landbúnaðargeiranum.

Markmið með samkeppni er ekki endilega að kalla fram mismunandi verð á vöru og þjónustu heldur miklu fremur að halda verði niðri og bæta þjónustu. En það er vandlifað í draumaheimi fullkominnar samkeppni. Þar má enginn bjóða lægra verð því þá er um undirboð að ræða, ef menn bjóða sama verð og aðrir er um verðsamráð að ræða og hærra verð er umsvifalaust kallað okur. Og allt er þetta tilefni „tafarlausrar opinberrar rannsóknar“.