Út er komið eftir nokkurra ára hlé tímaritið Samúel og er það mörgum ánægjuefni. Þetta stafar ekki síst af því að Samúel hefur í gegnum tíðina iðulega verið málsvari aukins einstaklingsfrelsis, auk þess að veita mönnum afþreyingu og uppfræðslu eins og tímarit gera gjarna. Sem dæmi má nefna að í Samúel hefur mátt lesa greinar til stuðnings frjálsu útvarpi og gegn bjórbanni. Þó sjálfsagt þyki nú að mega hlusta á annað en það sem ríkinu þóknast að útvarpa og jafn sjálfsagt þyki að fá að drekka bjór ef mönnum hentar, þá var hvorugt sjálfsagt áður en þeir sem börðust fyrir þessu frelsi létu í sér heyra. Raunar var það svo að til að mynda þingmönnum jafnaðar- og félagshyggjumanna þótti engin ástæða til að styðja frumvörp um aukið frjálsræði á þessum sviðum. Þess vegna er ástæða til að þakka þeim sem börðust fyrir þessu aukna frelsi og vona um leið að þeir muni halda áfram að birta skrif til varnar frelsinu í bland við fallegar myndir og greinar almenns eðlis.
Eins og menn vita standa „Sameinuðu þjóðirnar“ nú fyrir mikilli ráðstefnu í Suður-Afríku. Á ráðstefnunni er fjallað um kynþáttahatur og skyld mál og mörg skynsamleg orð hafa þar fallið. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna hætti reyndar við þátttöku á ráðstefnunni og sendinefnd landsins er nú öll farin til síns heima. En það kemur ekki að sök því meiri höfðingjar eru eftir. Engum ráðstefnugesti hefur þó verið fagnað eins og einum mætum þjóðarleiðtoga sem gerir lukku hvar sem hann kemur. Þetta er hinn besti maður, því eins og Nkosasana Dlamini-Zuma, utanríkisráðherra Suður-Afríku benti á, þá stýrir hann „lýðræðislegasta ríki heims“. Þessi virti höfðingi heitir auðvitað Fidel Castro og er einræðisherra á Kúbu.