Sennilega muna flestir lesenda eftir því írafári sem í sumar varð um „málefni Árna Johnsen“ enda voru um tíma allir fréttatímar undirlagðir af frásögnum af Árna, yfirheyrslum fjölmiðlamanna yfir honum og vitnisburði manna sem skyndilega gáfu sig fram hvaðanæva að og töldu sig hafa eitt og annað fram að færa sem gæti fært sönnur á misferli hans og illmennsku. Og síðan Árnamál risu sem hæst hafa fjölmiðlamenn eitt miklum tíma í að ræða hver við annan um það hve fjölmiðlamenn hafi staðið sig vel, hve þeir hafi verið fastir fyrir en þó sanngjarnir, ágengir en þó kurteisir.
Og ekki kvartaði Vefþjóðviljinn yfir frammistöðu þeirra þó hann hefði jafnvel kosið að þeir hefðu sumir varið öllu minna rými í sjálfshól. En fáir nenna líka lengur að ergja sig yfir þessu uppáhaldsumfjöllunarefni fjölmiðlamanna. Hvað um það, þá héldu líklega ýmsir að fjölmiðlamenn myndu ekki láta staðar numið við „rannsókn“ sína á málefnum Árna Johnsens heldur myndu einnig sinna öðrum hlutum sem komu upp í tengslum við þau. En það er nú eins og það er.
Muna menn eftir því, að þegar Árnamálin voru í algleymi, að þá kvaddi sér hljóðs í fjölmiðlum maður nokkur að nafni Gísli Helgason sem starfar á vegum Blindrafélagsins. Honum lá það á hjarta að greina frá því að fyrir nokkrum misserum hefði Árni Johnsen átt viðskipti við hljóðver Blindrafélagsins en óskað eftir því að þau viðskipti yrðu ekki gefin upp til skatts. Sagði Gísli að hann hefði látið undan óskum Árna með þeim orðum að þá yrði að gefa greiðslu Árna upp sem gjöf til Blindrafélagsins, og hefði Gísli gert það. Þessu greindu fjölmiðlamenn frá og þurftu menn ekki að hugsa lengi til að sjá hver væri lögbrjóturinn í málinu, það væri helvítið hann Árni. Ríkisútvarpið bætti því meira að segja við frétt sína af þessu, að á plötunni sem þarna hefði verið tekin upp, hefði fjármálaráðherrann, Geir Haarde, meira að segja sungið nokkur lög, hvaða máli sem það gat nú skipt.
En hvernig er það, hvers ábyrgð er það að skila virðisaukaskatti af seldri þjónustu? Því er frekar fljótsvarað. Það er ábyrgð verksalans. Ekki verkkaupans. Það er ábyrgð Gísla Helgasonar að Blindrafélagið skili virðisaukaskatti af seldri þjónustu. Árni Johnsen ber ekki ábyrgð á því. En þetta nefndu fréttamennirnir aldrei, í huga þeirra var Árni Johnsen, verkkaupinn, að brjóta skattalögin. En ekki Gísli Helgason, verksalinn.
Ætli fjölmiðlar fari ekki að grennslast fyrir um það hvar Gísla-málið er statt í kerfinu? Vissulega var upphæðin ekki há en hún nægði fyrir frétt þegar Árni Johnsen var annars vegar. Eða líta fjölmiðlamenn kannski svo á, að af einhverjum furðulegum ástæðum séu starfsmenn Blindrafélagsins undanþegnir skattalögunum? Að forsvarsmenn Blindrafélagsins hverju sinni, þurfi bara aldrei að skila virðisaukaskatti? Það skyldi þó aldrei vera. Að minnsta kosti hafa fjölmiðlamenn aldrei haft mikinn áhuga á að fjalla um langvarandi brot Helga Hjörvars, fyrrverandi formanns Blindrafélagsins, á virðisaukaskattlögunum. Og hafa ekkert við það að athuga að R-listinn ekki aðeins velji þennan höfðingja í borgarráð heldur geri hann að forseta borgarstjórnar.