Í gær varð eitt mesta umferðaröngþveiti Íslandssögunnar. Það átti sér stað á Suðurgötunni við enda Skothússvegar í Reykjavík. Þar höfðu einir 15 bílar staðnæmst í röð og biðu þeir þess að komast út á Melatorgið. Lengri gerast bílaraðirnar ekki hér á landi. Ástæðan fyrir þessu alíslenska öngþveiti var einföld. Áður en greint er frá ástæðunni er þó nauðsynlegt að taka fram að þetta ástand í gær kallar ekki á tugmilljarða jarðgöng undir Gamla kirkjugarðinn og heldur ekki járnbrautarlest, hvorki ofan jarðar né neðan. Helgi Pétursson og aðrir borgarfulltúar geta jafnvel haldið áfram að aka um á bílum sínum á bíllausu dögunum sem þeir skipuleggja, rétt eins og þeir hafa alltaf gert á slíkum dögum.
Nú, ástæðan fyrir því að þarna myndaðist umferðaröngþveiti, svona á reykvískan mælikvarða, var lokun Hringbrautar til norðurs frá Melatorgi. Það dugar sem sé varla að loka mikilvægum umferðaræðum í borginni til að alvöru öngþveiti skapist. Jafnvel þó helstu samgönguæð Seltjarnarneshrepps upp í Mosfellssveit sé kippt úr sambandi verður biðröðin ekki nema 15 bílar og enginn tefst nema um örfáar mínútur. Og svo eru menn með miklar áhyggjur af umferðarmálum í borginni. Vafalaust munu kerfiskarlar í borgarstjórn, hjá Strætó bs og borgarskipulagi þó halda áfram að láta sig dreyma um að leysa „vanda“ sem þennan á kostnað annarra en það breytir því ekki að eini vandinn í umferðinni í Reykjavík í dag eru gulu ferlíkin sem aka mannlaus á kostnað skattgreiðenda um götur borginnar úr takti við alla aðra umferð.
Vandamálin í umferðinni í Reykjavík eru álíka alvarleg og „miðbæjarvandinn“. „Vandi“ miðbæjarins er einnig hugarangur borgarfulltrúa í tilvistarkreppu. Borgarfulltrúa sem hafa „engar lausnir, enga sýn, en send[a] borgurunum reikninginn fyrir getuleysinu,“ svo vitnað sé til orða núverandi forseta borgarstjórnar, skattaprinsins Helga Hjörvar, um R-listann og afrek hans.