Miðvikudagur 1. ágúst 2001

213. tbl. 5. árg.

„Reykingar eru allra meina bót.“ Auglýsingar af þessu tagi voru algengar á fyrri hluta síðustu aldar. Þrátt fyrir að þessi fullyrðing sé líklega ekki alls kostar rétt þá leynist í henni sannleikskorn. Colitis ulcerosa nefnist bólgusjúkdómur í ristli. Þrátt fyrir að vera ekki algengur getur hann verið ærið illvígur. Sjúkdómurinn hefur verið töluvert rannsakaður og ýmsar niðurstöður liggja fyrir, misjafnlega afdráttarlausar. Ein hinna afdráttarlausu er að sjúkdómurinn herjar einkum á þá sem ekki reykja tóbak. Hin lága tíðni sjúkdómsins hjá reykingafólki hefur verið staðfest í fjölmörgum læknisfræðilegum vísindarannsóknum þó að ekki hafi tekist að útskýra nákvæmlega með hvaða hætti tóbaksreykingar hafa þessi áhrif.
Ekki er hlaupið að því að gefa almennar leiðbeiningar hvaða tóbaks er best að neyta, ef menn vilja nota það til að forðast þennan illvíga sjúkdóm. Hlýtur hér val hvers og eins einnig að ráðast af smekk hans og löngunum að öðru leyti, en eins og menn vita eru ýmsar tegundir tóbaks til sölu í verslunum og veitingastöðum, og eru þær æði misjafnar að bragði og gæðum. Margir vilja helst taka tóbak inn með vindlingum, sumir notast við pípur en aðrir vilja ekkert annað en vindla, sumir jafnvel ekki aðra en kúbanska.

En kúbanskir vindlar eru vitaskuld ekki alltaf innan seilingar. Meðal annars er verslun með þá sums staðar ólögleg og kemur það til vegna þess að bandarísk stjórnvöld hafa lengi barist gegn viðskiptum við Kúbu. Þá eru þeir Kúbuvindlar sem bjóðast oft óheyrilega dýrir og má að miklu leyti kenna viðskiptahindrunum um það. Loks hefur sú skoðun heyrst að vindlar, eins og flest annað séu hættulegir heilsu manna og hafa margir, sem ekki vilja reykja vindla, því amast við sölu þeirra til hinna. Þrátt fyrir, eða jafnvel vegna þess að kúbanskir vindlar séu samkvæmt framansögðu taldir til forboðinnar munaðarvöru, eru þessir vindlar almennt taldir fremstir meðal jafningja. Margir vindlamenn telja að fátt jafnist á við að reykja góðan kúbanskan vindil eftir veglega máltíð, einkum ef dreypt er á góðu koníaki með.

Kúbuvindlar, eins og flestar aðrar neysluvörur, eru vitaskuld seldir undir ýmsum vörumerkjum og hafa merkin Cohiba, Partagas og Romeo y Julieta sérstaklega gert lukku meðal neytenda. Vindlar þessara framleiðenda bjóðast í ýmsum stærðum og gerðum og er almennt mest lagt í stærstu gerðirnar. Kúbanskir vindlar hafa almennt mun meira og sterkara bragð en vindlar sem ræktaðir eru annars staðar. Til samanburðar hafa vindlar framleiddir í Dóminíkanska lýðveldinu, svo sem vindlar af Davidoff-tegund, mun mildara og jafnara bragð. Að vísu voru Davidoff vindlar lengi vel framleiddir á Kúbu en í kjölfar valdatöku Fidels Kastrós var reksturinn færður til Dóminíkanska lýðveldisins.