Laugardagur 21. júlí 2001

202. tbl. 5. árg.

„Segja vísindin satt?“ spyr Patrick J. Michaels, rannsóknarprófessor í umhverfisfræðum, í grein á vef Cato stofnunarinnar. Michaels fjallar í greininni um það vinsæla alþjóðlega umræðuefni sem er hiti á yfirborði jarðarkúlunnar og hvað valdi honum. Hann segir að höfundar nýlegra og umtalaðra skýrslna um hitnun jarðarinnar hafi algerlega rangt fyrir sér um grundvallaratriði málsins, nefnilega um það hvaða áhrif menn hafi á hita jarðarinnar. Michaels bendir á að frá 1872 og jafnvel fyrr hafi verið vitað að koldíoxíð eða koltvísýringur, CO2, fangi hitageisla. Það hafi einnig verið vitað lengi að þessi hitaáhrif minnki eftir því sem þéttleiki koldíoxíðs vaxi. Þetta þýði að stöðug, eða línuleg, aukning koldíoxíðs í andrúmsloftinu þýði æ minni aukningu hita og eina leiðin til að auka stöðugt hita í andrúmsloftinu sé að koldíoxíð aukist með sífellt auknum hraða, þ.e. með veldisvexti. Michaels segir að þetta sé í raun það sem skýrsluhöfundarnir geri ráð fyrir en staðreyndin sé sú að síðasta aldarfjórðung eigi þetta ekki við. Á þessu tímabili hafi aukningin ekki verið vaxandi heldur jöfn eða línuleg. Afleiðingin af þessari línulegu aukningu koldíoxíðs síðasta aldarfjórðunginn segir Michaels að geti aðeins orðið sú að á næstu áratugum muni draga úr hitaaukningu í andrúmsloftinu.

Ýmsum kann að þykja ótrúlegt að útblástur hafi aðeins aukist línulega en ekki með veldisvexti á sama tíma og fólki hafi fjölgað með veldisvexti. Við þessu eru að sögn Michaels tvö svör. Annars vegar hefur nýting þeirra efna sem við brennum til að framleiða orku batnað og hins vegar er jörðin að verða grænni. Nýtingin hafi þó ekki batnað vegna alþjóðlegra fundahalda eða samþykkta heldur sé hún afleiðing þess að hluthafar hafa krafist aukinnar hagkvæmni. Engin ástæða sé til að ætla að úr þessu dragi. Ástæðu þess að jörðin er að verða grænni segir Michaels vera þá að aukið magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu hafi ýtt undir vöxt plantna, en eins og menn muna úr líffræðitímum barnaskólans þá innbyrða plöntur koldíoxíð og gefa frá sér súrefni, O2. Þessu til viðbótar hefur aukinn hiti, sér í lagi á köldum svæðum að vetrarlagi, lengt vaxtartíma plantna.

Yfirsást vísindamönnunum sem unnu við fyrrnefndar skýrslur þessi augljósa staðreynd? Nei, segir Michaels, en „hvar væru ég og aðrir í mínu fagi staddir ef okkur tækist ekki að hræða ykkur til að veita okkur aukna styrki? Í heimi þar sem sá sem gerir mest úr hættunni fær stærstu styrkina, er allt hættulegt og ekkert hollt.“