Helgarsprokið 1. júlí 2001

182. tbl. 5. árg.

Á Íslandi hafa starfað sérstakir stjórnmálaflokkar í þágu alþýðunnar, eins og nöfn þeirra gefa til kynna, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag. Þó mátu flokksmenn það á endanum svo að alþýðan gæti vel án þeirra verið og fóru að starfa undir nýjum nöfnum og kennitölum. Aðrir myndu ef til vill segja við brotthvarf þessara flokka af hinu pólitíska sjónarsviði að farið hefði fé betra, þessir flokkar hefðu löngum staðið gegn hag alþýðunnar með stefnu sinni um þjóðnýtingu og haftabúskap. En alþýðan mátti engu að síður burðast með það aukalega að þessir flokkar voru kenndir við hana um áratuga skeið. Eitt af því sem einkenndi þessa flokka var hve gjarnir þeir voru á að eigna sér ýmis jákvæð hugtök. Velferð, jöfnuður, réttlæti, samhjálp, menntun og heilbrigði voru flokksmönnum afar töm hugtök. Að sjálfsögðu voru aðrir flokkar á móti öllum þessum góðu málum af því þeir skrifuðu ekki undir hugmyndir alþýðuflokkanna um að ríkið ætti að sjá um þessi mál.

Arftakar þessara alþýðuflokka eru ekki síður fimir við að eigna sér jákvæð hugtök. Umhverfisvernd er líklega það vinsælasta í dag. Þeir sem hafa aðrar hugmyndir en þessar flokkar um eina ríkislausn í umhverfismálum eru einfaldlega á móti umhverfinu. Þeir sem vilja ekki endalaus lög og reglur, staðla, og umhverfismat hljóta að vera andvígir náttúrunni. Samkeppni er annað hugtak sem verður sífellt vinsælla meðal vinstrimanna. Samkeppni þeirra felst þó fyrst og fremst í lögum og reglum, stofnunum, eftirliti og öðrum opinberum aðgerðum. Þeir sem hafa efasemdir um þess konar samkeppni eru auðvitað andvígir samkeppni að mati ríkisforsjársinna.

Og þessi tilhneiging ríkisforsjársinna til vinstri og hægri er svo sem ekki bundin við Ísland eða ný af nálinni. Frédéric Bastiat víkur að þessu í Lögunum. Þar gerir hann atlögu að jafnaðarmönnum sem nota fagurgalann til að dylja áform sín um að setja lög og reglur um allt milli himins og jarðar:

Þrátt fyrir að vera svolítið góð með sig, er eins og jafnaðarstefnan finni á sér að öll hennar kerfi og fyrirætlanir eru á endanum heil ófreskja af lögmætu hnupli. En hvað gerir hún? Hún dylur það vandlega fyrir fólki – og líka sjálfri sér – með fegrandi heitum, eins og: bræðralag, samstaða, skipulag, samvinna. En af því við biðjum ekki um svona mikið af lögunum, af því við óskum ekki annars en réttlætis, segir jafnaðarstefnan gjarnan að við viljum ekki bræðralag, samstöðu, skipulag eða samvinnu – og gefur okkur umsögnina einstaklingshyggjumenn.
Hið rétta er að við höfnum ekki náttúrulegu skipulagi heldur þvinguðu skipulagi. Við höfnum ekki frjálsri samvinnu heldur bara ósjálfviljugri samvinnu. Við höfnum ekki eðlilegu bræðralagi heldur bara lög-skipuðu bræðralagi. Við höfnum ekki náttúrulegri samstöðu manna sem forsjónin kveður á um, heldur bara tilbúinni samstöðu, sem sviptir fólk sinni eðlilegu ábyrgð.

Jafnaðarstefnan ruglar saman stjórnvöldum og samfélagi, rétt eins þær gömlu stjórnmálahugmyndir sem hún er sprottin af. Því er það að í hvert sinn sem við viljum ekki að stjórnvöld geri eitthvað, ályktar jafnaðarstefnan að við viljum ekki að það sé gert yfir höfuð. Við viljum ekki að ríkið sjái um menntun; þar með viljum við ekki neina menntun. Við viljum ekki hafa ríkistrú; þar með viljum við ekki hafa neina trú. Við viljum ekki að ríkið sjái um kjarajöfnun; þar með viljum við ekki hafa neinn jöfnuð, og þar fram eftir götum. – Það mætti eins segja að við viljum ekki að fólk borði, af því við viljum ekki að ríkið rækti korn.