Sorpa sendi í vikunni litprentaðan bækling inn í hvert heimili á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún tilkynnir að framvegis verði hólf í gámum fyrir blöð og fernur skilin að svo blöðin og fernurnar blandist ekki saman. Fram að þessu hefur Sorpa dregið það fólk á asnaeyrunum sem flokkað hefur fernur og blöð frá öðru sorpi á heimilum sínum og skilað í sérstök hólf fyrir blöð og fernur á gámastöðvum stofnunarinnar. Í gámunum hafa blöðin og fernurnar sem fólk hefur haft fyrir að flokka runnið saman í einn graut. Í bæklingi Sorpu segir: „Til að einfalda flokkun og skil á fernum og blöðum í grenndargáma var ákveðið af hálfu Sorpu og sveitarfélaganna að tvöfalda kerfið.“
Í bæklingi Sorpu segir jafnframt: „Með því að flokka fernur og blöð og skila þeim í grenndargáma vinnst tvennt: Verðmætt hráefni er endurnýtt annars vegar og dregið er úr því landi sem leggja þarf undir sorpurðun hins vegar.“ Hvað með alla fyrirhöfnina við flokkunina og þvottinn á fernunum á heimilum fólks? Hvað með allan kostnaðinn og orkunotkunina sem fer í rúnta á fjölskyldubílnum á grenndarstöðvarnar með blaðabunka og fernur? Hvað með kostnaðinn og landnotkunina við rekstur grenndarstöðvanna? Hvað með kostnaðinn og orkunotkunina við flutning á blöðum og fernum til annarra landa?
Hvað ætli það kosti skattgreiðendur að þetta „verðmæta hráefni“ er endurnýtt? Ætli hin „einfalda flokkun“ þýði ekki í raun margföldun á kostnaði?
Í gær sýndi Ríkissjónvarpið 30 mínútna langan þátt þar sem kom fram að konur eru 30% viðmælenda í fjölmiðlum en karlar 70%. Og hvað?