Þingmenn Samfylkingarinnar – þeirra á meðal Jóhanna Sigurðardóttir sem manna mest hefur kvartað undan óráðsíu í ríkisbönkunum – sáu sér ekki fært að styðja frumvarp um einkavæðingu ríkisbankanna á Alþingi í gær þótt þeir treystu sé heldur ekki til að greiða atkvæði gegn því eins og vinstrigrænir. En þingmenn fylkingarinnar gerðu fleira en að sitja hjá á þinginu. Til dæmis lögðu nokkrir þingmenn hennar með Jóhönnu Sigurðardóttur í fararborddi fram þingsályktun um að Alþingi feli „forsætisráðherra að skipa nefnd til að vinna að gerð samræmds neyslustaðals um framfærslukostnað heimila eftir fjölskyldugerð “. Tilgangurinn með þessum neyslustaðli á meðal annars að vera sá að auðvelda fjármálastofnunum svonefnt greiðslumat eða mat á greiðslugetu einstaklinga við lántöku. Það er einkennilegur hugsunarháttur að ætla hinu opinbera að búa til staðal sem lýsir hverri „fjölskyldugerð“. Enn furðulegra en að ætla að slíkur staðall komi að betra gagni við mat á greiðslugetu lánþega en mat lánveitendanna sjálfra í hverju tilviki.
Reglugerðaríkið mun sækja fram þótt umsvifin á efnahagslegan mælikvarða standi í stað eða dragist saman. Til hvers að þjóðnýta fyrirtækin þegar hægt er að þjóðnýta einstaklingana? |
Ef til vill lýsir þessi tillaga stefnu Samfylkingarinnar í hnotskurn. Þingmenn hennar virðast líta svo á að leysa megi lífsgátuna og vanda hvers manns með því að ríkið rannsaki og hafi eftirlit með hverju smáatriði í lífi fólks og starfsemi fyrirtækja. Þeir vilja með öðrum orðum ekki þjóðnýta allt þjóðfélagið beint – eins og vinstrigrænir – heldur stýra því með tilskipunum, reglugerðum, stöðlum og eftirlitsstofnunum. Vinstri mennirnir í Samfylkingunni hafa gefist upp á því að verja beina þjóðnýtingu framleiðslutækjanna sem boðuð var í stefnuskrá gamla Alþýðuflokksins og víðar í flokkum þeirra. Þeir hafa gefist upp á því að sannfæra fólk um að best sé að ríkið eigi öll fyrirtæki. Þess í stað vilja þeir að ríkið stjórni fyrirtækjunum óbeint með tilskipunum, regluverki og opinberum eftirlitsstofnunum. Hinir alvitru embættismenn eiga ekki lengur að vera forstjórar ríkisfyrirtækja heldur ríkisstofnana, ríkisumboðsmanna og ríkisstofa sem hafa yfirstjórn yfir stjórnendum fyrirtækjanna og vit fyrir neytendum.
Hinir „nútímalegu jafnaðarmenn“ í Samfylkingunni kunna að hafa áttað sig á því að háir skattar og ríkisrekstur fyrirtækja eru ekki vinsælustu málin í dag. En þeir hafa einnig áttað sig á því að ná má fram sömu markmiðum um þjóðnýtingu þjóðfélagsins með lævíslegri hætti en beinni skattlagningu og ríkisrekstri. Reglur og eftirlitsstofnanir geta náð sama marki. Umsvif hins opinbera kann á næstu árum dragast saman á hinn hefðbundna mælikvarða: útgjöld hins opinbera sem hlutfall að landsframleiðslu. En í raun geta umsvifin aukist með sífeldri fjölgun fyrirmæla í lögum og reglum um hegðun einstaklinga og fyrirtækja. Reglugerðaríkið mun sækja fram þótt umsvifin á efnahagslegan mælikvarða standi í stað eða dragist saman. Til hvers að þjóðnýta fyrirtækin þegar hægt er að þjóðnýta einstaklingana?
Í B-deild stjórnartíðinda eru birtar nýjar reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli. Stærð B-deildarinnar segir auðvitað ekki alla söguna um umfang reglugerðaríkisins en getur gefið ákveðna vísbendingu um þróunina. Eins og sjá má á línuritinu hefur reglugerðaríkið þanist út á síðustu áratugum ef þessi mælikvarði er notaður. Þrátt fyrir þessa miklu útþenslu þess eiga þingmenn Samfylkingarinnar nóg af hugmyndum um frekari útþenslu upp í erminni.