Í gær átti sér stað nokkuð sérstakur atburður í verslunarmiðstöð í Hafnarfirði. Eigandi verslunar nokkurrar hafði heitið því að gefa þeim jakkaföt sem gengju naktir til verslunarinnar og ekki stóð á viðbrögðunum. Hámarksfjöldi þátttakenda var tíu og því þurftu nokkrir að sitja eftir í fullum herklæðum og gátu ekki spígsporað naktir um verslunarmiðstöðina. Atburðurinn var vitaskuld festur á filmu og einn af merkari sjónvarpsþáttum landsins, Með hausverk um helgar, átti raunar einhvern þátt í þessum atburði og sendi allt saman út í hinum mestu smáatriðum. Hætt er við að þeir sem af nektargöngunni fréttu hafi tekið henni misjafnlega. Sumum hefur verið algerlega sama um gönguna eða hefur jafnvel þótt hún skemmtilegt krydd í tilveruna. Ýmsir hafa látið sér nægja að verða undrandi og hafa hugsað með sér að skárra væri nú að greiða fyrir fötin með peningum en nektargöngu sem liggur í gegnum þvögu af Hafnfirðingum, sem að því er virtust höfðu ekki áður séð nakið fólk. Aðrir hafa hneykslast á uppátækinu, talið það smekklaust og óviðeigandi, en þó talið að svona lagað eigi alfarið verið ákvörðun þeirra sem þátt taka og að aðrir geti bara slökkt á sjónvarpstækjum sínum eða lokað augunum eigi þeir leið um verslunarmiðstöðina á þeim tíma sem menn bera sig þar.
Einhverjir taka þó sjálfsagt sömu afstöðu í þessu máli og hvað varðar nektardans eða annars konar nektariðnað. Kolbrúnar Halldórsdætur og Karlar Sigurbjörnssynir landsins telja sjálfsagt að verið sé að nýta sér neyð nektargangenda og jafnframt að ganga af þessu tagi grafi undan góðum siðum í þjóðfélaginu. Fólk af þessari gerð getur ekki ímyndað sér að til sé fólk annarrar gerðar og þar með sé útilokað að nokkur vilji starfa án fata, hvað þá að viðkomandi vilji vinna við erótík. Allir sem slíkt gera eru þá samkvæmt skilgreiningu í nauðungarvinnu. Þó var augljóst að enginn þeirra sem þátt tók í hinni sérstæðu göngu var þar nauðugur. Þátttakendur virtust heldur stoltir með frammistöðu sína, sögðust ekkert hafa að fela og settu jafnvel á svið ókeypis erótíska sýningu fyrir Kolbrúnarnar og Karlana. Frjáls vilji þessara nektargangenda mun þó engu breyta, ekki frekar en frjáls vilji þeirra sem dansa á svokölluðum súlustöðum. Einhverjar Kolbrúnar og Karlar munu heimta að slíkt athæfi verði stöðvað og þess verður varla langt að bíða að lagt verði fram frumvarp á Alþingi sem gerir mönnum óheimilt að gefa nöktu fólki fatnað. Og fái Kolbrúnarnar að ráða verður sú hegðun einnig gerð útlæg að vera nakinn undir fötunum.