Föstudagur 11. maí 2001

131. tbl. 5. árg.

Það er lífseigt ákvæðið um hlífðarfatafrádrátt úr um lögum nr. 41 frá 1954. Í dag nefnist þetta ákvæði sjómannaafsláttur og er sérstök niðurgreiðsla í formi skattaafsláttar til sjómanna upp á 691 krónu á dag. Sjómaðurinn greiðir um 7 þúsund krónur í tekjuskatt af 150 þúsund krónum en aðrir skattgreiðendur 28 þúsund krónur. Þessi niðurgreiðsla kostar ríkissjóð um 2 milljarða króna á ári eða öllu heldur þurfa aðrir launþegar að greiða hærra tekjuskattshlutfall fyrir vikið. Líklega mætti lækka tekjuskattshlutfallið langleiðina úr 38,76 í 37% með því að afnema sjómannaafsláttinn.

Menn átta sig ef til vill á því hve fráleitur sjómannaafslátturinn er með því að horfa á málið frá annarri hlið og kalla hlutina réttum nöfnum. Það myndu sjálfsagt ýmsir gapa yfir því ef lagður yrði sérstakur skattur á þá sem vinna í landi og sækja ekki sjóinn. Sá skattur gæti til dæmis kallast „sérstakur tekjuskattsauki landkrabba“ þó hann væri í raun aðeins annað nafn á gamla sjómannaafslættinum.
Pétur Blöndal þingmaður hefur gert tilraun til að koma frumvarpi um afnám sjómannaafsláttarins í gegnum Alþingi. Í greinargerð með frumvarpinu er farið yfir sögu málsins og öll helstu rök sem teflt er fram í umræðum um það. Hagsmunasamtök sjómanna hafa lagst gegn þessu frumvarpi og þingmenn ekki lagt í að samþykkja það af ótta við að styggja hetjur hafsins. Það væri ef til vill vænlegra til árangurs fyrir Pétur að fara hina leiðina í þessu máli og leggja fram frumvarp um að allir landsmenn njóti sömu skattfríðinda og sjómenn.

Um þessar mundir skiptast farmenn og vélstjórar á skoðunum og sýnist sitt hverjum.
Um þessar mundir skiptast farmenn og vélstjórar á skoðunum og sýnist sitt hverjum.

Nýlega bárust af því fréttir að Kentucky Fried og VISA hefðu náð samkomulagi eftir átta ára samningaþóf um að veitingastaðurinn muni taka við greiðslukortum. Virðist því mega ætla sem menn geti samið um hvað sem vera skal. Sjómenn hafa hins vegar ekki samið um kaup og kjör við vinnuveitendur sína árum saman. Ef til vill er ástæðan að hluta sú að sumir forystumenn þeirra eru í pólitískum hasar gegn kvótakerfinu og vilja fórna öllu – jafnvel atvinnu umbjóðenda sinna – í því stríði. Og nú eru forystumenn sjómanna og farmanna meira að segja komnir í stríð við nýjan óvin, vélstjóra, af því að vélstjórarnir leyfðu sér að semja við útgerðarmenn um kaup og kjör í stað þess að halda áfram að semja alls ekki um neitt við nokkurn mann.