Fulltrúardeildarþingmaðurinn bandaríski Ron Paul er kunnur fyrir að hafa efasemdir um mikil afskipti ríkisins af borgurunum og telur best fara á að ríkið sinni aðeins takmörkuðu hlutverki. Í þessu takmarkaða hlutverki felst ekki að reka dýrt „velferðar“kerfi þar sem peningar eru færðir úr vasa eins í vasa annars og þess vegna er ekki nauðsynlegt að skattar séu jafn háir og raunin er nú. Paul hefur því lagt fram á þingi tillögu um að 16. viðbót stjórnarskrárinnar, sem samþykkt var árið 1913, verði felld úr gildi, en í viðbótinni felst heimild til alríkisins að leggja skatta á tekjur fólks. „Bandaríkin komust af í 140 ár án tekjuskatts,“ segir Paul og bætir því við að með samþykkt 16. viðbótarinnar hafi dyrnar verið opnaðar fyrir umsvifamiklu ríkisvaldi. Samþykkt tillögu hans myndi loka þeim dyrum.
Þetta leiðir hugann að Íslandi, en lýðum er líklega ljóst eftir mikla kynningu ríkisins á landafundarárinu, að Ísland er töluvert eldra en Bandaríkin. Hér á landi komust menn býsna lengi af án mikillar skattheimtu – og raunar komust menn lengi vel ágætlega af án ríkisvalds, sé miðað við aðstæður þess tíma. En þó ekki sé gerð krafa um að umsvifalaust verði horfið til þess fyrirkomulags sem lagt var upp með, þ.e. Þjóðveldisins, þá má benda á ýmsa skatta sem menn hér á landi komust lengi vel af án. Söluskattur og virðisaukaskattur sem tók við af honum, eru tiltölulega nýleg fyrirbæri og landsmenn komust af án þessa skatts í tæp ellefu hundruð ár. Fyrst í stað var hann lagður á til bráðabirgða og var þá 2%, en nú er hann orðin varanleg áþján upp á lítil 24,5%. Við hliðina á þessum ósköpum bliknar flestur annar skattur, en þó má nefna að hátekjuskattur, sem nú er orðinn millitekjuskattur og skilar ríkinu samt sáralitlu, er ekki nema nokkurra ára gamall og ætti að leggjast af hið fyrsta. Ýmsar aðrar matarholur ríkissjóðs eru til að mynda erfðafjárskattur, eignarskattur, stimpilgjöld, bifreiðaskattur, og svo framvegis og svo framvegis. Af nógu er að taka þegar skattar eru annars vegar, enda puða menn um 40% vinnutímans fyrir ríkið.