Fimmtudagur 3. maí 2001

123. tbl. 5. árg.

Fyrir borgarstjórnarkosningar árið 1994 fylgdi Illugi Jökulsson Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eftir einn dag í kosningabaráttunni. Frásögn Illuga af þessari eftirför birtist svo í sérstöku kosningablaði R-listans þar sem óhætt er að segja að ýmsum hafi verið lofað ýmsu. Í blaðinu segir Illugi svo frá af ferðum Ingibjargar á kaffihús í miðborginni: „Svo kemur maður askvaðandi með smábarn á handleggnum og spyr umbúðalaust hvort það sé rétt að Reykjavíkurlistinn ætli að hækka skatta. „Nei,“ segir Ingibjörg Sólrún. „Við ætlum ekki að hækka skatta. Af hverju heldurðu það?““ Og samkvæmt frásögn Illuga svarar veslings maðurinn „Ja, vinnuveitandi minn sagði okkur starfsmönnum sínum það.“ Þar hafa menn það. Fyrir utan þau skilaboð að vinnuveitendur séu ósannsöglir óþokkar er ekki verið að koma öðru til skila en að Ingibjörg Sólrún lofar að hækka ekki skatta á borgarbúa. „Við ætlum ekki að hækka skatta.“ Svo einfalt er það.

Á árunum 1995 til 2000 greiddu borgarbúar 4.100 milljónir króna aukreitis til borgarinnar vegna hækkunar holræsaskatts. Veitufyrirtæki borgarinnar greiddu á þessum árum 2.700 milljónir aukalega inn í borgarsjóð en tekjur sínar hafa þau af einokunarþjónustu sinni við borgarbúa. Útsvar borgarbúa hækkaði úr 11,34% í 11,99% árið 1999 og svo í 12,70% árið 2000. Útsvarshlutfallið hefur því hækkað um 12% í valdatíð R-listans. Skattahækkun í krónum talið vegna útsvarshækkunarinnar skiptir milljörðum króna. Manninum með smábarnið á handleggnum hefði verið óhætt að trúa vinnuveitanda sínum. Á sama tíma hafa skuldir borgarinnar einnig snarhækkað.Það er því ekki nóg með að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi hækkað skatta á núverandi skattgreiðendur heldur munu skattgreiðendur framtíðar einnig finna fyrir því að menn með smábörn á handleggnum trúðu Ingibjörgu Sólrúnu frekar en vinnuveitendum sínum. Heildarskuldir borgarinnar árið 1994 voru 16,3 milljarðar króna en eru nú 32,3 milljarðar.