Skattalækkanir virðast handan hornsins. Tvær stefnur eru um það hvernig eigi að lækka skattana. Annars vegar að lækka skattana með því að lækka þá einfaldlega. Hins vegar að lækka skatta með því að hækka þá. Forsætisráðherra og raunar fleiri ráðherrar hafa að undanförnu mælt fyrir fyrri leiðinni. Talsmenn síðari leiðarinnar eru flestir úr Samfylkingunni þótt víðar megi finna menn sem telja að vænlegast sé að hækka skatta til að lækka þá. Össur Skarphéðinsson hefur til dæmis lýst því yfir að rétt sé að hækka aðra skatta, ekki síst á sjávarútveginn, til að greiða fyrir skattalækkun á einstaklinga. Össur telur með öðrum orðum að greiða þurfi fyrir skattalækkun með því að leggja á nýjan skatt. Þegnar Össurar skulda honum sum sé þann skatt sem hann tekur af þeim í dag og einn skattur fæst aðeins lækkaður með því að hækka annan. Að mati hinna nútímalegu jafnaðarmanna er útilokað að hið opinbera geti tekið minni hlut af tekjum manna til sín en það gerir í dag.
Það sem einkennir einnig málflutning þeirra, sem vilja lækka skatta með því að hækka þá, er að þeir vilja oftast hækka skatta mikið á fáa og lækka þá lítið á marga. Á hverjum degi heyrast nýjar hugmyndir um hvernig megi fjármagna skattalækkanir á fjöldann með skattahækkun á litla hópa fyrirtækja eða einstaklinga eða hópa sem virðast ekki stórir þótt þeir séu það þegar betur er að gáð eins og eigendur sjávarútvegsfyrirtækja. Hópur fólks í sjávarútvegi á þannig að greiða fyrir tekjuskattslækkun til fjöldans. Fá stórfyrirtæki eiga að greiða fyrir skattlækkun til margra smáfyrirtækja. Fáir með háar tekjur eiga að greiða hátekjuskatt til að fjármagna hærri skattleysismörk. Þetta er lýðskrum af verstu sort. Í forsetakosningum í Bandaríkjunum síðasta haust var einmitt tekist á um það hvort lækka ætti skatta á alla, eins og George W. Bush vildi, eða á útvalda hópa eins og Al Gore vildi. Eins og menn vita varð lýðskrumið undir í þeim kosningum.
Það er ekki aðeins rangt að mismuna mönnum með skattheimtu eftir því í hvaða atvinnugrein þeir starfa, hversu stórt fyrirtæki þeirra er eða hve háar tekjur þeir hafa heldur er það óæskilegt að pólitíkusar séu með puttana í því hvaða atvinnugreinar og fyrirtæki njóta lægstu skatta og hver beri hærri skatta. Skattar eiga að vera almennir og lágir en ekki sértækir og háir.