Davíð Oddsson forsætisráðherra gaf landsmönnum ádrátt um skattalækkanir í viðtali við Stöð 2 í fyrrakvöld. Forsætisráðherra sagði að hækka þyrfti skattleysismörk fyrir eignaskatt og svonefndan hátekjuskatt. Ráðherrann nefndi einnig nauðsyn þess að lækka tekjuskatt fyrirtækja og gjöld eins og stimpilgjöld.
<!––> <!––>Í dag má einstaklingur aðeins hafa innan við 300 þúsund krónur á mánuði án þess að greiða sérstakan hátekjuskatt þ.e. 7% til viðbótar. Sjálft tekjuskattshlutfallið 38,76% er reyndar svo hátt að ætla mætti að allir séu með svo glæpsamlega háar tekjur að þeir þarfnist sérstakrar hirtingar. Þessi sérstaki hátekjuskattur bitnar sérstaklega á þeim sem vinna mikið um skamma hríð, til dæmis í nokkur ár á meðan þeir eru að koma yfir sig þaki. Á meðan tekjuskattur er hlutfall af tekjum yfir ákveðnum mörkum er ekki þörf á sérstökum hátekjuskatti vilji menn skattleggja þá þyngst sem hæstar hafa tekjurnar. Þeir tekjuhærri greiða ekki aðeins hærri skatt í krónum talið heldur einnig hærra hlutfall. Þetta má sjá hér á grafinu til hliðar. Þeir sem hafa 100 þúsund krónur á mánuði greiða 12% tekjuskatt, þeir sem hafa innan við 200 þúsund á mánuði greiða innan við 25% tekjuskatt en þeir sem hafa 500 þúsund hátt í 35% skatt. Það er því engin þörf á sérstökum hátekjuskatti til að þeir sem hafa háar tekjur greiði hærra skatthlutfall. Hátekjuskattur eykur einnig jaðaráhrif skattkerfisins sem eykur líkur á undanskotum og er vinnuletjandi og dregur þar með kraft úr atvinnulífinu.
Eignaskattar eru víða á undanhaldi enda vinna þeir gegn sparnaði en með skuldsetningu og leiða til þess að menn skipta eigum sínum fyrir aðrar sem bera ekki skatt (til dæmis eignarskattsfrjáls ríkisskuldabréf) eða flytja þær úr landi með einhverjum hætti. Eignaskattur er einnig augljós margsköttun enda hafa menn greitt skatt af þeim tekjum sem þurfti til að kaupa eignirnar og yfirleitt virðisaukaskatt af kaupunum. Eignaskattar hafa ekki verið drjúg tekjulind fyrir ríkið en kalla á umfangsmikið eftirlit og kostnað fyrir ríkið. Einstaklingar og fyrirtæki hafa einnig af því kostnað og ama að halda eignum sínum neðan þeirra marka sem skatturinn leggst á. Einstaklingur má til dæmis aðeins eiga um 3,9 milljónir króna í skuldlausri eign. Allt umfram það er skattlagt um 1,20 til 1,45% á ári sem þýðir að á einni mannsævi eru allar eignir gerðar upptækar af ríkinu. Eignaskattur fyrirtækja leiðir til þess að raunverulegt skatthlutfall þeirra er mun hærra en þau 30% sem þau greiða í tekjuskatt. Það er einfaldast og eðlilegast – á meðan skattar eru innheimtir á annað borð – að fyrirtæki og einstaklingar greiði þá af tekjum en ekki eignum.
Lækkun skatta á fyrirtæki gæti tryggt í sessi þá kauphækkun sem orðið hefur á síðustu árum. Slík skattalækkun gæti einnig stuðlað að framhaldi á þeirri kjarabót. Hún gæti einnig haft áhrif á það hvort fyrirtæki koma hingað til lands og komið í veg fyrir að fyrirtæki sem eru hér nú flytji annað. Slík skattalækkun getur aukið hagvöxt og uppgang í atvinnulífinu hér á landi um ókomin ár.