Fátt er fréttnæmara þessa dagana en bandarísk herflugvél í Alþýðulýðveldinu Kína. Þessi vél veldur töluverðum titringi milli stjórnvalda í Bandaríkjunum og harðstjóranna í Beijing. Ekki er ástæða til að þreyta menn á enn einni frásögninni af þessu máli en eitt hefur vakið athygli og það er að fréttamenn hafa sagt frá því að Kínverjar séu háðari Bandaríkjamönnum en Bandaríkjamenn Kínverjum og er þar vísað til þess að vöruskiptajöfnuður Kína við Bandaríkin er jákvæður og sami jöfnuður Bandaríkjanna við Kína þar með neikvæður. Það liggur í loftinu að Bandaríkjamenn væru heppnir ef skrúfast myndi fyrir þessi skelfilega óhagstæðu viðskipti. En hvað þýðir að vöruskiptajöfnuður sé jákvæður eða neikvæður? Jákvæður vöruskiptajöfnuður Kínverja þýðir að þeir senda meira af vörum til Bandaríkjanna en þeir fá frá Bandaríkjunum. Ef viðskipti landanna eru einangruð frá öðrum viðskiptum er niðurstaðan sú að í Bandaríkjunum er verulegt magn af leikföngum, pennum og ýmiss konar öðrum varningi sem framleiddur er í Kína. Í Kína er á móti töluvert magn af Bandaríkjadölum. Það má því segja að Kínverjar hafi fengið pappírspeninga fyrir leikföng og teljist þannig með jákvæðan vöruskiptajöfnuð.
Þar sem talað er um jákvæðan og neikvæðan vöruskiptajöfnuð ruglast sumir í ríminu og telja – sem von er – að jákvætt sé gott og neikvætt vont. Þeir halda að Kínverjar séu að græða stórkostlega á Bandaríkjamönnum en Bandaríkjamenn tapi að sama skapi. Svo er þó vitaskuld ekki, báðir eru að græða enda yrðu engin viðskipti nema báðir græddu. Bandaríkjamenn græða kínversk leikföng og Kínverjar bandaríska peninga. Bandaríkjamenn njóta leikfanganna beint en Kínverjar þurfa að kaupa eitthvað fyrir dollarana til að þeir verði annað en jákvæður vöruskiptajöfnuður á pappír.
Land sem hefur ávallt jákvæðan jöfnuð er í raun ár eftir ár að senda vörur úr landi og safna peningum annarra landa. Það er auðvitað ekki jákvætt til lengdar. Hins vegar getur verið jákvætt að vera með neikvæðan jöfnuð um tíma, þó það sé neikvætt að vera með neikvæðan jöfnuð til eilífðar. Niðurstaðan er sú að jákvæður jöfnuður er í sjálfu sér hvorki jákvæður né neikvæður og sama gildir um neikvæðan jöfnuð. Þetta eru aðeins hugtök sem lýsa tilteknum viðskiptum.
Ef einhver lesandi er ekki enn orðinn ruglaður á þessu neikvæða og jákvæða jafnaðartali er viðkomandi hvattur til að lesa þennan pistil afturábak. Það ætti að leysa vandann.