Helgarsprokið 8. apríl 2001

98. tbl. 5. árg.

Uppeldi
Uppeldi

Um áramótin tóku gildi ný lög um fæðingarorlof. Af því tilefni er í nýútkomnu hefti tímaritsins Uppeldis rætt við þrenn pör sem eignast hafa barn á þessu ári og þar sem faðirinn hefur nýtt sér nýveittan rétt til fæðingarorlofs. Nýju lögin voru kynnt sem stórfelld réttarbót fyrir feður, svo það er kannski tilvalið að líta á hvað þessir feður hafa að segja.

Fyrsta parið sem Uppeldi ræðir við eru Harpa Valdimarsdóttir og Ómar Einarsson. Ómar segir: „Njóti barn ekki beggja foreldra getur það mest fengið sex mánaða samvistir við foreldri í fæðingarorlofi á meðan önnur börn njóta níu mánaða. Sú staðreynd að ekki sé hægt að færa orlofið milli foreldra sýnir að hin nýju lög um fæðingarorlof miðast ekki við hagsmuni barna heldur kvenna fyrst og fremst.“ Ómar er ekki einungis ósáttur við það hvernig nýju lögin mismuna börnum heldur hefur hann einnig áhyggjur af kostnaði við lögin og því að þau verði misnotuð: „Í fyrsta lagi verður þetta fáránlega dýrt fyrir skattgreiðendur þegar við erum komnir með alla þrjá mánuðina. Og í öðru lagi býður þetta upp á svakalega misnotkun. Það verður sennilega sett nýtt met í misnotkun á almannafé því það verður mjög auðvelt fyrir fólk að misnota kerfið. Auðvitað er það hið besta mál að gera körlum kleift að taka sér fæðingarorlof en um leið er verið að mismuna börnum. Segjum að faðirinn geti ekki tekið sér orlofið þá fær barnið bara sex mánuði með móður sinni meðan önnur börn fá að vera samvistum við foreldra sína í 9 mánuði. Þegar öllu er á botninn hvolft eru þetta kvenréttindalög þar sem börnum er klárlega mismunað.“

„„Einstæð móðir gæti verið að fá 33 þúsund kr. á mánuði á meðan að hátekjuforeldrar, sem eru með sinn hvort 500 þúsund kallinn í mánaðartekjur, væru að fá 400 þúsund á mánuði í bætur. Mér finnst algerlega út í hött að skattgreiðendur fari að borga hálaunafólki bætur fyrir að vera heima hjá börnum sínum.““

Ómar er einnig ósáttur við að ríkið borgi margfalt meira til þeirra sem hæstar tekjur hafa en til láglaunafólks: „Einstæð móðir gæti verið að fá 33 þúsund kr. á mánuði á meðan að hátekjuforeldrar, sem eru með sinn hvort 500 þúsund kallinn í mánaðartekjur, væru að fá 400 þúsund á mánuði í bætur. Mér finnst algerlega út í hött að skattgreiðendur fari að borga hálaunafólki bætur fyrir að vera heima hjá börnum sínum. Svo finnst mér ekki þurfa lagasetningu til að feður taki sér fæðingarorlof, það er einfaldlega eitthvað sem menn semja um á frjálsum markaði.“

Næsta par kynnir Uppeldi til sögunnar sem Diddu Bjarnadóttur og Árna Halldórsson. Segir þar að Árna blandist hugur um ágæti nýju laganna og að hann sé ósáttur við að foreldrar megi ekki flytja orlofsréttinn milli sín, ef annað hvort þeirra getur ekki nýtt hann. Og Árni hefur einnig áhyggjur af kostnaðinum: „En við megum ekki gleyma því að þetta kostar allt peninga. Því meira sem ég er heima, því hærri skatta þarf ég að borga og því meira þarf ég að vinna seinna meir.“

Síðasta parið sem talað er við heita Bryndís Böðvarsdóttir og Pétur I. Haraldsson. Segja má að af viðmælendum tímaritsins séu þau sáttust við nýju lögin og nefna meðal annars að nýju lögin kunni að hjálpa ungum konum sem eru í atvinnuleit. Bæði telja þau hins vegar óeðlilegt að ekkert þak sé á greiðslum frá Tryggingastofnun til bótaþeganna. Nefnir blaðamaður sem dæmi að „múraðir bankastjórar“ fái hundruð þúsunda króna á mánuði fyrir að vera heima í orlofi. Og Bryndís og Pétur segja: „Ef þú ert með milljón á mánuði þá færðu 800 þúsund í fæðingarorlof á mánuði, sem er ekki beint réttlátt.“

Það verður því ekki sagt að það sé gegnumgangandi hrifning hjá hinum nýbökuðu feðrum yfir hinum nýju lögum – sem þó voru boðuð og barin í gegn sem sérstök „réttarbót fyrir feður“. Þvert á móti koma fram alvarlegar athugasemdir um galla sem ekki þurfa nánari útskýringar við. En svo augljósir sem margir gallar laganna eru, þá hafa heitustu talsmenn laganna ekki tekið í mál að breyta þeim á nokkurn hátt. Má telja augljóst að á þeim bæ sé mönnum algerlega sama um augljósa mismunun í garð barna, borðliggjandi misnotkunarmöguleika og stórfellda útgjaldaaukningu og látlausar skattahækkanir sem nýju lögin munu kalla á um alla framtíð. Þegar lögin voru barin í gegn síðastliðið vor, þá var nefnilega bent á alla þessa galla. En samsærisfólkinu, sem stóð að því að keyra lögin fram, stóð nákvæmlega á sama.

Hvernig ætli standi á því að lagasetning sem þessi verði að veruleika? Nýju fæðingarorlofslögin eru dæmi um hvað getur gerst þegar einstakir ráðamenn ganga í björg fámenns kredduhóps og láta hann leiða sig til þess að keyra í gegn löggjöf sem eingöngu er sniðin að ýtrasta rétttrúnaði sellunnar. Þau eru dæmi um það, hvaða afleiðingar það kann að hafa, þegar ístöðulitlir ráðamenn sem umfram allt annað vilja falla í kramið, fá þá flugu í höfuðið að allt í einu hafi þeir dottið niður á töfraleið til þess að slá í gegn. Ráðamenn sem aldrei vilja móðga hagsmunahópa en gefa lítið fyrir skattgreiðendur.