Laugardagur 7. apríl 2001

97. tbl. 5. árg.

Á síðasta ári komu út tvær bækur á íslensku þar sem fjallað var um kenninguna um gróðurhúsaáhrif. Annars vegar var um að ræða bókina Hið sanna ástand heimsins eftir Björn Lomborg tölfræðing og lektor við Árósaháskóla og hins vegar 2000 árum eftir Vínlandsfund eftir Friðrik Daníelsson efnaverkfræðing. Í báðum bókum voru settar fram ágætlega rökstuddar efasemdir um kenninguna um gróðurhúsaáhrifin. Í báðum bókunum er varað við því að grípa til aðgerða fyrr en menn hafi betri vitneskju um veðrakerfi jarðar. Í báðum bókunum er einnig bent á að vilji svo ólíklega til að kenningin eigi við rök að styðjast sé ódýrara að takast á við afleiðingar gróðurhúsaáhrifinna (sem séu ekki allar slæmar) heldur en grípa til þeirra örþrifaráða sem Kyoto bókunin gerir ráð fyrir. Þótt það gefi ekki rétta mynd afstöðu vísindamanna almennt í heiminum að þeir tveir vísindamenn sem rituðu um málið á íslensku skuli efast um kenninguna um gróðurhúsaáhrifin ætti það að minnsta kosti að fá menn til að efast um að kenningin sé álíka óumdeild og margföldunartaflan meðal vísindamanna.

Friðrik Daníelsson ritaði einmitt grein um Kyoto bókunina í Morgunblaðið í vikunni. Þar segir Friðrik: „Loksins hafði einhver kjark í sér til að sprengja bóluna um Kyoto-bókunina, tilraun skriffinna Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins og umhverfishreyfinganna til að koma alheimshöftum á eldsneytisnotkun og þar með iðnvæðingu og atvinnuþróun. Það kom í hlut Bandaríkjanna að slá hræðsluherferðina um „loftslagsbreytingar af mannavöldum“ af.“ Og áfram úr grein Friðriks: „Helstu kenningar og „rannsóknaniðurstöður“ um aukinn hita, meiri óveðratíðni, hækkandi sjávarstöðu eða bráðnun jökla af mannavöldum hafa verið hraktar, þótt ekki sé hægt að sjá það í fjölmiðlunum sem hafa gagnrýnislaust dreift áróðri umhverfisöfgaiðnaðarins.“ Friðrik bendir einnig á þær jákvæðu hliðar sem aukinn styrkur koltvísýrings hefur: „Efnahagur margra jarðarbúa hefur batnað vegna meiri uppskeru síðustu áratugina. Ástæðan fyrir þessu er meðal annars að koltvísýringsmagnið í loftinu hefur aukist (hversu mikið sem afleiðing aukins sólarstyrks veit enginn) . Koltvísýringurinn er í örlitlu magni í andrúmsloftinu, aðeins tæplega 0,04% en hann er samt eina fæðan sem jarðarbúar hafa, gróðurinn og þar með öll dýr og menn. Öll næring jarðar er búin til úr honum. “

Friðrik lýkur grein sinni með hugleiðingu um það hlutverk Bandaríkjamanna að berjast við öfgastefnur frá Evrópu og að Íslendingar eigi nú sem fyrr að taka sér stöðu með Bandaríkjunum: „Það er ekki tilviljun að Bandaríkin þurfi til að ganga á undan við að sprengja Kyoto-bóluna, þar eru hvað flestir og sérhæfðastir vísindamenn sem hafa þekkingu á loftslagsfræðum, sem og þróuðustu tækin. Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur beinan aðgang að þeim. Það er langt í að vísindamenn viti hvort mannkynið getur haft áhrif á loftslagið og hvernig þau verða. Það gæti þurft áratuga rannsóknir til. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Bandaríkin þurfa að berjast við öfgastefnur sem reknar eru aðallega frá Evrópu, það virðist hafa verið hlutverk þeirra mestalla 20. öldina að kveða niður ýmsar slíkar. Þær hatrömmustu kostuðu Bandaríkin stríð og mannfórnir og ein þeirra átta áratuga og stundum tvísýna baráttu.“