Það þykir víst enn fréttnæmt þegar vinstri menn skipta um flokk þótt það ætti frekar að segja frá því í heimspressunni ef einhver íslenskur vinstri maður hangir á sama flokki yfir heilt kjörtímabil. Í gær var frétt í Morgunblaðinu um að Ragnar Arnalds fyrsti formaður Alþýðubandalagsins hefði gengið til liðs við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Hann var á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir síðustu þingkosningar. Það eina sem kemur á óvart við flokkaskipti Ragnars er hve langt er til kosninga en það hefði verið áhrifaríkara að skipta skömmu fyrir kosningar. Ragnar hefur ekki þolað við lengur. Vafalaust munu fleiri strjúka úr Samfylkingunni er nær dregur sveitarstjórnarkosningum á næsta ári.
Flokkaflakk Ragnars leiðir hugann að afdrifum félaga hans úr Alþýðubandalaginu sem að átti að ganga inn í Samfylkinguna við hina miklu sameiningu vinstri manna árið 1999.Ýmsir hafa látið að því liggja að Samfylkingin sé ekkert annað en gamli Alþýðuflokkurinn og vinstrigrænir ekkert nema Alþýðubandalagið endurborið. Vissulega er forysta vinstrigrænna öll skipuð mönnum úr gamla Alþýðubandalaginu. En forysta Samfylkingarinnar er það líka. Formaðurinn Samfylkingarinnar er fyrrum ritstjóri Þjóðviljans og varaformaðurinn fyrrum formaður Alþýðubandalagsins. Þingflokksformaðurinn var þingmaður Alþýðubandalagsins. Öll voru þau í stuðningsmannahópi Ólafs Ragnars Grímssonar í Alþýðubandalaginu. Í borgarstjórn Reykjavíkur sitja heldur engir alþýðuflokksmenn.
Hvernig stendur á því að kratarnir úr Alþýðuflokknum eru hvergi sjáanlegir lengur? Hvað varð um þá? Hverjum er um að kenna? Jón Baldvin Hannibalsson og Sighvatur Björgvinsson voru síðustu formenn Alþýðuflokksins áður en hann skipti um nafn, tók við skuldum Alþýðubandalagsins og alþýðubandalagsmenn leiddir til forystu. Þeir bera því megin ábyrgð á þessari „sameiningu“ sem fór fram á árunum 1995 – 1999. Á þessum árum sat stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við völd. Alþýðuflokkurinn átti jafnan sóknarfæri eftir stjórn þessara flokka. Í stað þess að nýta þetta færi gáfu Jón Baldvin og Sighvatur hugsjónalausu liði úr stuðningsmannasveit Ólafs Ragnars Grímssonar Alþýðuflokkinn. Ætli finnist nokkurn tímann skynsamleg skýring á þessum afleik síðustu formanna Alþýðuflokksins?