Það eru ekki ósvipuð örlög að Gale Norton er orðin innanríkisráðherra í Bandaríkjunum og Adam Smith varð tollstjóri í Skotlandi. Norton hefur lengi barist gegn afskiptum skriffinna í Washington af víðáttum og náttúru í vesturhluta Bandaríkjanna eins og fjallað var um hér fyrir nokkru. Nú er hún hins vegar orðin hluti af kerfinu sem hún barðist gegn en innanríkisráðuneytið ræður yfir gríðarlegu landflæmi í vestrinu. Í úttekt Washington Post á nýja ráðherranum var þetta raunar orðað svo nýlega að uppreisnarmaðurinn hafi brotist yfir hallarmúrana og tekið völdin. Þótt ýmis umhverfisverndarsamtök hafi á stuttum tíma eytt yfir 1 milljón dala í áróðursherferð gegn vali George W. Bush á Norton sem innanríkisráðherra og ekki sparað stóryrðin um hana virðist fátt í úttektinni í Washington Post benda til þess að hún sé sá vargur sem umhverfisverndarsinnar hafa haldið fram.
En umhverfisverndarsinnar eru óánægðir með fleiri verk Bush forseta en val hans á innanríkisráðherra. Bush hefur gefið út dánarvottorð Kyoto bókunarinnar um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Ýmsir aðrir stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa látið eins og Kyoto bókunin sé raunhæft markmið og hér á landi hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar og talsmenn umhverfisverndarsamtaka úthrópað ríkisstjórnina fyrir að staðfesta ekki bókunina. Hefur verið látið í það skína að Íslendingar séu einir á báti í þessum efnum og mestir umhverfissóða á Vesturlöndum. Þessum hrópum linnti þó að mestu eftir að Einar K. Guðfinnsson lagði fram fyrirspurn til utanríkisráðherra um hvaða ríki hefðu fullgilt hina margrómuðu Kyoto bókun. Í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Einars kom fram að eftirtalin 30 ríki höfðu fullgilt eða gerst aðilar að Kyoto-bókuninni hinn 20. nóvember 2000: Antígva og Barbúda, Aserbaídsjan, Bahamaeyjar, Barbadoseyjar, Bólivía, Ekvador, El Salvador, Fídjíeyjar, Georgía, Gínea, Gvatemala, Hondúras, Jamaíka, Kíribatí, Kýpur, Lesótó, Maldíveyjar, Mexíkó, Miðbaugs-Gínea, Míkrónesía, Mongólía, Niue, Níkaragva, Palau, Panama, Paragvæ, Trínidad og Tóbagó, Túrkmenistan, Túvalú og Úsbekistan.