Tugum milljóna var varið í könnunina og kynningu á henni, kosið var í rúma viku, kjaftaþættir og fréttatímar voru undirlagðir af „flugvallarmálinu“, dagblöðin voru full af greinum um væntanlega könnun og í leiðurum þeirra voru menn hvattir til að kjósa – nú væri komið nýtt, aukið og betra lýðræði. Stofnuð voru samtök á báða bóga sem auglýstu af kappi og hvöttu menn til að kjósa. Meðal annars var kosið í Kringlunni í gær en á góðum laugardegi koma um 20 þúsund manns í Kringluna. Og niðurstaða gærdagsins er skýr. Þrátt fyrir allt umstangið tóku aðeins 37,2% kjósenda þátt í könnuninni. Mikill meiri hluti kjósenda lét hins vegar ekki teyma sig á asnaeyrunum.
„Og þótt gærdagurinn hafi leitt í ljós að mikill meirihluti Reykvíkinga hefur lítinn sem engan áhuga á stóra „flugvallarmálinu“, þá var það ekki það eina sem kom í ljós í gær. Þeir fjölmiðlamenn sem undanfarið hafa skrifað heilu dálkana um að „beint lýðræði“ sé krafa „almennings“ hafa nú fengið nýja og alvarlega ástæðu til að hugsa sinn gang og jafnvel velta fyrir sér hvort vera megi að í heiminum finnist önnur viðhorf en þeirra eigin.“ |
Ástæðan fyrir því að farið var út í þessa könnun var hávær krafa lítils hóps um að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Allar skoðanakannanir um málefni borgarinnar síðustu ár sýndu að „flugvallarmálið“ var ekkert mál. Þetta fékkst staðfest í könnuninni. Minnihluti (49,3%) þess minnihluta (37,2%) borgarbúa sem tók þátt í könnuninni vill flugvöllinn burt. Það gera 18% kjósenda í Reykjavík eða 14.913 manns af 81.258! Það er nú allur árangurinn af margra ára æsingarherferðum gegn Reykjavíkurflugvelli. 66.345 atkvæðisbærir Reykvíkingar sáu ekki ástæðu til að greiða atkvæði gegn þessum úthrópaða flugvelli. Fyrir könnunina sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að könnunin yrði bindandi ef 75% kjósenda tækju þátt eða ef yfir 50% borgarbúa tækju aðra hvora afstöðuna. Hvorugt gerðist. Þátttakan var 37,2% en ekki 75%. Afstöðu með hvorum kosti um sig tóku 18% en ekki 50%. Eða svo öllu sé til skila haldið: 18,35 % sögðust vilja flugvöllinn burt eftir árið 2016, 17,88 % sögðust vilja flugvöllinn á sínum stað eftir árið 2016. En 63,77 % borgarbúa hafa ekki enn sagt sína skoðun á málinu. Þeir sem vilja geta hins vegar velt fyrir sér hvor fylkingin hafi mætt betur í gær.
Þeir sem boðað hafa að kannanir af þessu tagi muni leysa fulltrúalýðræðið af hólmi hljóta einnig að hugsa sinn gang. Borgarstjórn notaði skattfé í áróður gegn flugvellinum m.a. með útgáfu á „kynningarriti“ um málið á kostnað skattgreiðenda og borgaryfirvöld hvöttu menn til að kjósa með auglýsingum í dagblöðum og sjónvarpi, á strætisvögnum og biðskýlum. Kjörstöðum var vandlega dreift um borgina þó ekki hafi endilega verið miðað við íbúafjölda hverfanna þegar þeim var skipt niður. Í Vesturbæ Reykjavíkur voru til dæmis tveir kjörstaðir en í Breiðholti var aðeins einn kjörstaður og enginn í Árbæ. „Botnlangabúarnir“, eins og Helgi Hjörvar uppnefnir íbúa í úthverfum borgarinnar, hafa kannski ekki þótt eins eftirsóknarverðir kjósendur. Á lokasprettinum blönduðu samgönguyfirvöld sér svo í slaginn með útgáfu kynningarrits sem skattgreiðendur fá reikninginn fyrir. Engu að síður ákvað mikill meirihluti borgarbúa að taka ekki þátt í þessum leik.
Og þótt gærdagurinn hafi leitt í ljós að mikill meirihluti Reykvíkinga hefur lítinn sem engan áhuga á stóra „flugvallarmálinu“, þá var það ekki það eina sem kom í ljós í gær. Þeir fjölmiðlamenn sem undanfarið hafa skrifað heilu dálkana um að „beint lýðræði“ sé krafa „almennings“ hafa nú fengið nýja og alvarlega ástæðu til að hugsa sinn gang og jafnvel velta fyrir sér hvort vera megi að í heiminum finnist önnur viðhorf en þeirra eigin. Þrátt fyrir þá gríðarlegu kynningu sem að ofan var lýst, þrátt fyrir að sveitarstjórnir um allt land, dálkahöfundar og fjölmiðlamenn hafi verið á barmi taugaáfalls undanfarnar vikur, þrátt fyrir að meirihluti borgarstjórnar hafi lagt mikið upp úr því að sem flestir kysu, þrátt fyrir að 13 borgarfulltrúar af 15 hafi tekið þátt í kosningabaráttunni, – þrátt fyrir allt þetta þá sátu 62,8 % borgarbúa heima. Skilaboðin til þeirra fjölmiðlamanna sem þykjast hafa einkarétt á „nútímaviðhorfum“ og gera sífelldar kröfur um almennar kosningar um flesta hluti, gætu vart verið skýrari. Eða hver halda menn að þátttakan yrði ef kosið yrði um þau mál sem væru enn þýðingarminni en „flugvallarmálið“? Dettur mönnum í hug að þar kysu aðrir en helstu hagsmunahópar? Og dettur mönnum í hug að það sé krafa „nútímans“?
Í helgarsproki hér fyrir viku ræddi Vef-Þjóðviljinn um margt það sem gerir kröfurnar um „milliliðalaust lýðræði“ svo varhugaverðar – þrátt fyrir áferðarfallegt heiti. Meðal þess ánægjulegasta við niðurstöðu gærdagsins er sú skoðun borgarbúa á þeirri hugmynd sem blasir nú við. Fyrirfram var hamrað á því við fólk að nauðsynlegt væri að það kysi, ekki fyrst og fremst til að lýsa stuðningi eða andstöðu við Reykjavíkurflugvöll, heldur ekki síður vegna þess að þátttakan yrði ótvírætt merki um hug borgarbúa til „milliliðalauss lýðræðis“. Mikill meirihluti borgarbúa virðist hafa svarað þeim áskorunum með afgerandi hætti.