Ef marka má fréttir hyggst ríkisstjórnin áður en langt um líður leggja fram frumvarp um sölu á hlutum sínum í Búnaðarbankanum og Landsbankanum. Að lokinni þessari sölu verður ríkið ekki lengur þátttakandi í rekstri viðskiptabanka, sem er nokkuð sem fáir þorðu að vona fyrir áratug eða svo. Þeir eru reyndar til sem óttast þá stund að ríkið reki engan viðskiptabanka og telja að því muni fylgja mikil óáran. Þessari skoðun hafa að vísu ekki fylgt haldbær rök, en þó á hún einhverja stuðningsmenn í röðum Vinstri-grænna og Samfylkingar eins og við er að búast. Slíkir menn geta þó huggað sig við að enn verður ríkið ekki með öllu horfið af fjármálamarkaði, því það rekur enn Íbúðalánasjóð. Þeim rekstri þarf ríkið að hætta hið snarasta og flytja starfsemina í hendur einkaaðila, enda engin ástæða til að ríkið veiti húsnæðislán fremur en önnur lán. Aðstæður á fjármálamarkaði hafa breyst það mikið síðustu ár, að nú eru aðrir en ríkið farnir að koma sér fyrir á húsnæðislánamarkaði og enn aðrir undirbúa þátttöku á þessum markaði. Íbúðalánasjóður hlýtur því bráðlega að hætta störfum, í núverandi mynd að minnsta kosti.
„Ríkisstarfsmaðurinn Guðmundur Sigurðsson, forstöðumaður samkeppnissviðs Samkeppnisstofnunar, mun áfram gegna störfum yfir-stjórnarformanns í Búnaðarbanka og Landsbanka og taka stærstu ákvarðanir sem snerta rekstur þessara banka …“ |
Áður en lengra er haldið er líklega rétt að draga úr einni fullyrðingu hér að ofan. Sagt var að ríkið mundi með þessari sölu ekki reka neinn viðskiptabanka, en þetta er ekki alveg nákvæmt. Ríkisstarfsmaðurinn Guðmundur Sigurðsson, forstöðumaður samkeppnissviðs Samkeppnisstofnunar, mun áfram gegna störfum yfir-stjórnarformanns í Búnaðarbanka og Landsbanka og taka stærstu ákvarðanir sem snerta rekstur þessara banka, svo sem hvort þeir eigi að ganga til samstarfs við eða renna saman við aðrar fjármálastofnanir. En þrátt fyrir þessi miklu og, að því er sumum virðist óvæntu, ítök Guðmundar í bankakerfinu, þá má segja að flest færist í rétta átt á íslenskum fjármálamarkaði og það jafnvel nokkuð hratt og þokkalega örugglega.
Umsvif ríkis og sveitarfélaga eru þó sem kunnugt er á fleiri sviðum en á fjármálasviðinu og á þeim er einnig brýnt að draga úr. Hér má nefna raforkukerfi landsins, en það er nánast að öllu leyti í höndum opinberra aðila, aðallega ríkisins. Ekki eru mikið skárri rök fyrir því að ríkið reki Landsvirkjun en Landsbankann, en þó virðist ganga hægar að losa það út úr fyrrnefnda fyrirtækinu. Þarna er verk að vinna og mætti jafnvel sjá fyrir sér að hluti þess yrði unninn innan fyrirtækisins. Þá gæti hist svo vel á að sá sem fyrir rúmum tveimur áratugum setti fram slagorðið „báknið burt“ gæti stýrt þeirri vinnu innan stofnunarinnar.
Annað svið er fjarskiptasviðið, en þar virðast mál þó munu leysast fljótlega, því ríkisstjórnin hefur uppi áætlanir um að selja Landssímann í nokkrum hlutum á næstu misserum. Svo furðulegt sem það kann nú að hljóma þá hefur einn angi hins opinbera að vísu verið að auka hlut sinn á þessu sviði á síðustu árum. Það gerðist þegar meirihlutinn í Reykjavík stofnaði fyrirtækið Línu.Net. Tilgangur fyrirtækisins var í upphafi sagður sá að nýta raflínur Orkuveitunnar (þá Rafmagnsveitunnar) til gagnaflutninga, en þegar það gekk ekki var ekki hætt við fyrirtækið heldur breytti það til og fór út í ljósleiðaravæðingu. Síðan hefur Lína.Net sótt inn á enn fleiri svið, svo sem ýmsar gerðir af flutningi á tali og gögnum í lofti. Ekkert af því sem fyrirtækið gerir, eða hefur ætlað sér að gera en ekki gert, var þess eðlis að einkafyrirtæki gætu ekki gert það betur en Reykjavíkurborg. Það þjónaði hins vegar pólitískum hagsmunum Alfreðs Þorsteinssonar, Helga Hjörvar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að útsvarsgreiðendur færu út í þennan rekstur. Með þeirri fornesku sem stofnun þessa fyrirtækis var, gátu þau látið líta út fyrir að þau væru nútímaleg um leið og þau gátu gert marga þeirra sem starfa á þessu sviði, háðari sér.
Þó Lína.Net sé dæmi um afturhvarf til fortíðar er þó von til að fyrirtækið fari á endanum úr opinberri eigu og að úr skaðanum af stofnun þess verði þar með dregið. Þetta gæti gerst með því að R-listinn sæi að sér og seldi fyrirtækið, eða að hinn harðsvíraði minnihluti í borgarstjórn næði völdum og losaði borgina við fyrirtækið.
Þegar rætt er um einkavæðingu eru tveir málaflokkar sem oft eru undan skildir, en það eru mennta- og heilbrigðismál. Nokkur hreyfing er að vísu komin á í báðum þessum málaflokkum, en hægt gengur. Enn er það svo að sumir sem eru samþykkir því að ríki og sveit dragi sig út úr starfsemi á borð við þá sem nefnd er hér að ofan telja þó að opinberir starfsmenn hljóti einir að sitja að því að veita menntun og lækna sjúka. Stundum
er jafnvel sagt að þetta tvennt sé of mikilvægt til að leyfa einkafyrirtækjum aðgang. Hið sama mætti þá líklega segja um mat, hann er lífsnauðsyn ekki síður en menntun og læknisþjónusta og án matar og drykkjar lifa menn ekki nema örfáa daga. Þó viðrar enginn þá skoðun að ríkið ætti að reka matvöruverslun til að tryggja öllum góðan mat á hagstæðu verði. Staðreyndin er nefnilega sú að það er ekki vegna þess að þjónustan er mikilvæg sem sumir styðja ríkisrekstur hennar. Ástæðan er bara vanafesta, íhaldssemi, afturhald eða hvaða nafni menn annars vilja nefna það að vera á móti breytingum til bóta. Sumir streitast bara alltaf á móti ef einhverju á að breyta og halda að þá fari allt um koll.
Þetta á líka við um Ríkisútvarpið. Sumir virðast enn halda að útvarp og sjónvarp á Íslandi leggist af ef ríkið dregur sig út af þeim markaði. Sömu menn mundu þó líklega ekki vilja sjá Ríkisdagblaðið á hverjum degi. Þarna eru nefnilega vanafestan, íhaldssemin og afturhaldið enn á ferð. Þeir virðast óttast að hverfi Ríkissjónvarpið af markaðnum þá bíði þeirra bara snjókoma á skjánum öll kvöld. Þó þeir sem hafa séð hryllingsmyndirnar Poltergeist hafi auðvitað meiri skilning á þessum nagandi ótta en aðrir, þá leyfa þeir sér engu að síður óska eftir sterkari röksemdum frá þeim sem vilja að skattgreiðendur reki útvarps- og sjónvarpsstöðvar.