Bætt menntun ungmenna er eitt af því fyrsta sem margir stjórnmálamenn nefna þegar þeir eru spurðir um stefnu stjórnmálaflokka sinna. Þetta á ekki aðeins við á Íslandi heldur einnig erlendis. Hér á landi hefur viðkvæðið löngum verið að ausa meiri fjármunum í menntakerfið í von um að þeir leysi vandann, en lítið hefur verið hugað að því að vandinn sé ef til vill kerfislægur. Vinstri menn eru sérstaklega íhaldssamir að þessu leyti, því þeir hafa allt á hornum sér þegar nýjar hugmyndir í menntamálum eru nefndar. Ein hugmyndanna er að láta einkaaðila reka skólana en að ríkið haldi áfram að fjármagna menntunina. Vinstri menn hafa ekki mátt heyra á þetta minnst, og hafa jafnvel haft uppi mikil stóryrði þegar beita á þessari aðferð við að ná meiri menntun út úr hverri krónu.
Eitt ágætt dæmi um þennan ofsa vinstri manna er viðhorf hinna „nútímalegu“ Alþýðuflokksmanna í Hafnarfirði. Alþýðuflokksmenn og aðrir þeir sem teljast til Samfylkingarinnar hafa lengi þóst afar nútímalegir, en það skortir nokkuð á að orðum fylgi efndir. Þannig hefur þetta reyndar alltaf verið, og má sem dæmi nefna að þegar frjálst útvarp var leyft með lögum fyrir um 15 árum studdi enginn þingmaður Samfylkingarflokkanna frumvarpið. En nútímalegu jafnaðarmennirnir í Hafnarfirði hafa nú lýst því yfir að þeir hyggist afturkalla útboð á rekstri Áslandsskóla komist þeir til valda eftir næstu sveitarstjórnarkosningar. Engu mun þá skipta hversu vel rekstur skólans í höndum annarra en bæjarins hefur gengið, afturhaldið skal verða ofan á hvað sem það kostar.
Völd hafnfirskra krata eru sem betur fer óveruleg í Flórída í Bandaríkjunum svo þar hefur takmarkað ávísanakerfi verið reynt í skólakerfinu. Með ávísanakerfi er í grófum dráttum átt við að hið opinbera greiði fyrir menntunina en nemendur geti farið í þann skóla sem þeim hugnast best. Ný rannsókn á kerfinu í Flórída sýnir, að árangur nemenda á prófum batnar þegar skólarnir búa við það að nemendur geta fengið menntunarávísun frá hinu opinbera og flutt sig milli skóla. Það á við um skóla eins og aðrar stofnanir eða fyrirtæki, að ef hvatinn til að gera vel er aukinn, þá eykst árangurinn. Og ef skólar eiga á hættu að missa nemendur sína vegna þess að kennslan stenst ekki samanburð við kennslu annarra skóla, þá taka þeir sig á og gera betur.