Þeir sem greiða laun hafa fengið að kenna á hinum svonefnda viðbótarlífeyrissparnaði sem ríkið niðurgreiðir um 10% af framlagi launþega og innheimtir ekki tekjuskatt af. Launabókhald fyrirtækja er orðið mun flóknara en áður þar sem nú eru launþegar með frá 1 til 4% í viðbótarlífeyrissparnað undanþegin skatti og fá gjarna 1 til 2% mótframlag frá atvinnurekanda og svo tíund ofan á eigið framlag frá ríkinu. Launagreiðandi sér um reikna þetta út fyrir hvern og einn og að skila þessu í hina og þessa lífeyrissjóði. Hann þarf líka að standa skil á niðurgreiðslu ríkisins! Hún fæst svo endurgreidd í lok árs með lækkun á tryggingargjaldi fyrirtækja – svona til að flækja málin örlítið meira. Pétur Blöndal þingmaður sá þessa martröð launagreiðenda fyrir og í Viðskiptablaðinu 13. janúar 1999 ritaði hann grein þar sem sagði m.a.: „Samkvæmt nýsamþykktum lögum er gert ráð fyrir að atvinnurekendur geti bætt 10% ofan á framlag launþegans, þ.e. 0,2% af launum og fengið lækkun á tryggingagjaldi á móti þannig að ríkið er í reynd að styrkja þennan sérstaka sparnað beint. Hljómar vel en er skelfilegt í framkvæmd. Þeir sem létu sér detta þetta í hug hafa örugglega aldrei rekið fyrirtæki, nema þá ríkisfyrirtæki, þar sem umstang og kostnaður virðist oft ekki skipta máli. Líklega mun færslufjöldi fyrirtækja vegna launa aukast um 20% og meðalupphæð þessara færslna mun verða undir 250 kr. Kostnaður fyrirtækja og skatteftirlitsmanna við hverja færslu verður sennilega meiri en færslan sjálf.“
Það er furðulegt að blanda launagreiðendum í sparnaðarmál launþega en ríkið blandar raunar vinnuveitendum í ýmis mál launþega. Til dæmis sjá vinnuveitendur að stórum hluta um skattamál starfsmanna sinna og greiðslu á meðlagi og innheimtu meðlags- og skattskulda fyrir ríkið. Það hefur því þótt eðlilegasti hlutur í heimi að atvinnurekendur sjái um að reikna út sparnað launþega. Þetta hefur einnig þótt nauðsynlegt til að „kenna“ mönnum að spara á hinn eina rétta hátt en þó án þess að hafa fyrir því sjálfir eða læra annað en að hlýða. Ríkið frestar skattlagningu og niðurgreiðir sparnaðinn og vinnuveitandi sér um að skila honum. Þannig sér launþeginn hvorki tangur né tetur af aurunum og freistast ekki til að eyða þeim eitthvað allt annað en ríkinu þóknast.
Bókaútgáfan Liberty Fund hefur gefið út 25 nýja titla sem sjá má í bókalista hennar fyrir árið 2001. Sem fyrr kemur talsvert af sígildum verkum úr prentsmiðju útgáfunnar en aðalsmerkið er ætíð hið afar lága verð þótt ekkert sé til sparað við útgáfuna. Liberty Fund hefur einnig sett talsverðan fjölda bóka á nýjan vef og þar er hægt að gramsa að vild í textum klassískra hagfræðirita með leitarvélum eða bara lesa.