Svo virðist sem allt tal um „misskiptinguna í þjóðfélaginu“ hafi gufað upp eftir að Alþingi ákvað síðasta vor að framvegis fái hjón sem hafa 1 milljón króna hvort í tekjur á mánuði 7,2 milljónir króna í velferðarstyrk frá Tryggingarstofnun ríkisins ef þau verða fyrir því áfalli að eignast barn. Einstæð móðir með 150 þúsund krónur á mánuði mun fá 1/10 af því sem hálaunahjónin fá lendi hún í því sem nú er alvarlegasta áfall lífsins að mati Alþingis – að eignast lítið barn. Að mati velferðarkerfisins er þetta áfall því meira sem foreldrarnir hafa hærri tekjur! Og undir þetta álit tóku Jóhanna Sigurðardóttir og aðrir þingmenn – sem hafa slegið um sig með tali um misskiptinguna – þegar þeir greiddu lögunum um fæðingarorlof atkvæði sitt á Alþingi síðasta vor.
Það er svo sem ekkert nýtt að þeir efnaminnstu beri skarðan hlut frá borði þegar kemur að úthlutun úr velferðarkerfinu. Fátækasta fólkið er yfirleitt ekki í háværustu hagmunahópunum sem sækja í ríkissjóð með skipulögðum hætti. Sælir verða háværir fremur en fátækir af viðskiptum sínum við úthlutunarnefndir ríkisins. Stjórnmálamenn eiga yfirleitt meira undir öðrum hópum en fátækum og mikilvægara að kaupa stuðning þeirra en fátækra með úthlutunum úr sameiginlegum sjóðum. Bertrand de Jouvenel orðar það svo í bók sinni The Ethics of Redistribution: „Því nánar sem málið er skoðað því betur kemur í ljós að tekjujöfnun snýst ekki um að færa tekjur frá ríkum til fátækra heldur vald frá einstaklingunum til ríkisins.“
Við þetta bætist svo að fyrir því hafa verið færð ágæt rök að jafnvel þótt tekjujöfnun tækist fullkomlega með velferðarkerfinu geri það fátækum ógagn til lengri tíma litið þar sem sú skattheimta sem þetta hefur í för með sér hægi á hagvexti og skaði þar með alla þegar upp er staðið.
Gordon Tullock prófessor í hagfræði við George Mason University nefnir lítið dæmi í grein sem hann ritaði í tímaritið Economic Affairs í haust. Þar segir hann: „Gefum okkur að ríkistjórninni takist að bæta kjör þess fimmtungs sem er verst settur um 50% með því að skattleggja hina. Ef við gerum ráð fyrir að það hagvöxtur verði 3% í stað 5% vegna þessarar tekjujöfnunar munu tekjur fátæka fimmtungsins verða lægri eftir 15 ár en án tekjujöfnunar. Og ekki nóg með það, heldur mun fátæki fimmtungurinn halda áfram að tapa á þessu um alla eilífð.“