Ef Svíar, sem nú eru í forsæti hjá Evrópusambandinu, ná fram vilja sínum, verður notkun orða eins og „barbídúkka“, „Andrésblað“ og „legókubbur“ utan leyfilegs orðaforða þegar börn heyra til. Að minnsta kosti orðaforða auglýsenda. Í nýjasta tölublaði The Economist kemur fram það sjónarmið ráðgjafa sænska menntamálaráðuneytisins að börn séu of barnaleg til að skilja auglýsingar rétt. Og jafnvel þau börn sem skilji að um auglýsingu er að ræða geti tekið upp á því að misnota upplýsingar sem þau fá úr henni til að suða og nudda leikföng út úr foreldrum sínum. Með slíkum rökum eru börn „vernduð“ gegn auglýsingum í Svíþjóð. Að sögn tímaritsins hefur þetta að vísu ekki borið árangur, því auglýsendur hafa aðrar leiðir til að koma boðskapnum á framfæri en sænska fjölmiðla. Kynningar í verslunum og sjónvarpssendingar á sænsku barnaefni frá útlöndum ná eyrum og augum barnanna, en á meðan verða sænskir fjölmiðlar af auglýsingatekjum og hafa því minna fé til að láta framleiða barnaefni.
Í þessari umræðu er nauðsynlegt að hafa í huga rétt manna til að tjá sig, þar á meðal rétt framleiðenda til að kynna framleiðslu sína. En í The Economist er bent á annað sem fólki kann að finnast skipta nokkru í þessari umræðu og það er að þessar auglýsingar eru ekki eins áhrifamiklar og sumir vilja vera láta, og að börn eru ekki eins barnaleg og sænsk stjórnvöld halda. Fjöldi kannana sem vitnað er til bendir til að börn láti ekki auðveldlega stjórnast af auglýsingum og að foreldrar geti vel útskýrt fyrir börnum sínum hvað um er að ræða. „Suðandi barn er illa upp alið barn,“ er haft eftir konu (og foreldri) sem hefur kynnt sér rannsóknir á þessu sviði.
Það er líklega ekki til vinsælda fallið að benda sumum foreldrum á það, en stundum þegar þeir óska eftir því að ríkið grípi inn í og setji reglur á borð við bann við auglýsingum fyrir börn, þá er vandinn ekki auglýsingarnar heldur lélegt uppeldi barnanna. Það má aldrei gleymast að það er foreldranna en ekki ríkisins að ala upp börnin. Eitt af því sem foreldrarnir þurfa að gera er að kenna börnum sínum hvað auglýsingar eru – og hvað þær eru ekki.