Þeir eru ýmsir sem ímynda sér að á síðustu öld hafi íslensk skáld – að minnsta kosti þau sem eitthvað gátu – verið vinstri menn. Þetta hafi verið eðlilegt og sjálfsagt, meira að segja svo eðlilegt að ekkert sé við það að athuga að þessi sömu skáld hafi jafnvel áratugum saman rekið hér erindi Jósefs Stalíns með öllum tiltækum ráðum. Og vissulega voru vinstri sinnuð skáld fyrirferðarmikil og nöfn eins og Halldór Kiljan Laxness og Þórbergur Þórðarson mega lengi vera til minnis um menn sem vörðu skáldgáfu sinni til að lofsyngja fjöldamorðingja og harðstjóra. En stétt íslenskra skálda á þó annað og betra skilið en að vera öll dæmd eftir örlögum slíkra manna. Á Íslandi voru ætíð önnur skáld og betur gerð sem aldrei freistuðust til fylgilags við þá helstefnu sem heimurinn hefur séð versta.
Tómas Guðmundsson frá Efri-Brú í Grímsnesi er maklegt dæmi um íslenskt skáld sem um langan aldur sinnti sinni köllun án þess að ganga nokkru sinni í þjónustu þeirrar heimslygi sem með skipulögðum hætti var breidd út um Evrópu mikinn hluta síðustu aldar. Og það voru ekki einungis valdhafar í Kreml sem áttu í Tómasi einlægan andstæðing. Mannfyrirlitning, alræði og ofstjórn voru eitur í beinum Tómasar Guðmundssonar og skipti þá engu hvaðan þau bárust. Þegar kynþáttahyggja reið húsum á Vesturlöndum orti Tómas um blökkustúlku sem hann hafði kynnst í Frakklandi og þótti sem hjörtum mannanna svipaði saman, hvort sem þau kæmu sunnan úr Súdan eða norðan úr Grímsnesi. Og þegar hvað mestur völlur var á þeim í Berlín sagði Tómas í ljóði að í sporum Hitlers myndi hann henda hakakrossi sínum í Rínarfljót en taka sér unga gyðingastúlku í fang. Fáa fyrirleit Tómas Guðmundsson meira en þjóðernisjafnaðarmennina þýsku sem um nokkurra ára skeið unnu að því að flytja helvíti upp á jörðina, eins og hann orðaði það á einum stað. En ólíkt ýmsum öðrum áttaði hann sig á því að austur í Moskvu sat önnur stjórn sem var engu betri. Nasisminn og kommúnisminn eru tvær hliðar á sama peningi:
Og ofbeldishneigðin, sem herjar á þjóðir og lönd, | |
fær hvergi dulizt, hve títt sem hún litum skiptir. | |
– Í gær var hún máski brún þessi böðulshönd, | |
sem blóðug og rauð í dag sínu vopni lyftir. |
Tómas Guðmundsson var ekki einungis ljóðskáld. Hér má sérstaklega geta þess að hann var annar ritstjóra hins áhrifamikla tímarits, Helgafells, sem Ragnar Jónsson gaf út á fimmta áratug síðustu aldar. Þar birti Tómas bæði ljóð og laust mál, en greinar hans voru með því efni tímaritsins sem mest var lesið. Þó þar sé sitthvað bundið stað og stund þá er ekki of fast að orði kveðið þó sagt sé að margar hugleiðingar Tómasar frá þessum árum yrðu nútímamönnum talsvert þarfari lesning en margt sem nú er hvað fastast haldið að þeim. Og hvort myndi það ekki eiga við um þessi rúmlega hálfrar aldar gömlu orð?
„Velferðarríkið á upptök sín í mannúðlegum hugsjónum, en gæti samt ekki farið svo, að umhyggja þess fyrir þegnunum yrði að lokum frelsi þeirra tvíeggjað sverð? Temur ríkið sér ekki margs konar hegðun, sem ekki mundi þykja góð latína í samskiptum þegnanna, svo sem hnýsni í einkamál, fjármunalega ágengni, hóflausa og þarflausa afskiptasemi? Þetta leiðir af því, sem reyndar liggur í hlutarins eðli, að ríkissiðgæði stendur yfirleitt á miklu lægra stigi en einkasiðgæði. … Enginn efast um, að valdhafarnir vilji þegnum sínum allt hið bezta eins og vera ber í lýðræðisríkjum, en er ekki einmitt þess vegna nokkur hætta á því, að hin hóflausa umhyggja þeirra og hjartagæzka leiði fyrr en lýkur til þess, að þeir telji velferð og eignum þegnanna örugglegast borgið í sínum höndum?“ |
Af öðrum störfum Tómasar má geta þess að hann var um tæplega þriggja áratuga skeið einn af forsvarsmönnum Almenna bókafélagsins og sat í bókmenntaráði þess nær allt til dauðadags. Það forlag var ekki hvað síst stofnað til mótvægis við ofurvald Máls og menningar og velgengni Almenna bókafélagsins gerði borgaralegum rithöfundum kleift að sinna list sinni án þess að allt ylti á því hvort vinstri mönnum þóknaðist að gefa þá út. En þrátt fyrir þessi störf sín var Tómas Guðmundsson fyrst og fremst ljóðskáld. Í tæplega sjötíu ár hefur hann verið eitt allra vinsælasta skáld Íslands og íbúar höfuðstaðarins hafa haft hann sérstaklega í hávegum. Hann var manna fyrstur til að yrkja um fegurð Reykjavíkur og þegar önnur skáld fundu henni flest til foráttu horfði Tómas á það sem gaf lífi borgarbúa gildi. Gamansöm kvæði hans, hvort sem þau fjalla um hættulegar fjallgöngur eða sakleysislega spássértúra suður Laufásveginn, hitta í mark hjá nýjum og nýjum kynslóðum enda verður Tómas Guðmundsson alltaf maður þeirra sem þykir veröldin fögur.