Föstudagur 5. janúar 2001

5. tbl. 5. árg.

Samtök atvinnulífsins birtu í gær á heimasíðu sinni umfjöllun um aukningu ríkisútgjalda síðustu ára. Í umfjölluninni segir að skatttekjur ríkissjóðs hafi „rokið upp í góðærinu undanfarin ár – enn meira en tekjur landsmanna. Á tveim síðustu árum nýliðinnar aldar, frá 1998 til 2000, hækkuðu skattarnir um 27½%.“ Þetta er dágóð aukning sem gleður skattgreiðendur ekki nema hóflega, en ekki er útlitið gæfulegra fyrir yfirstandandi ár. Um það segir í umfjölluninni: „Ný fjárlög mæla fyrir um 219 milljarða króna útgjöld árið 2001, 26 milljörðum meira en fjárlög ársins 2000. Þetta er rúmlega 13% aukning.“

Á það er einnig bent að ríkisútgjöld reynist jafnan meiri á endanum en fjárlög leyfa og nú sé til dæmis gert ráð fyrir að útgjöld ársins 2000 verði 7 milljörðum umfram heimildir fjárlaga. Sem dæmi um skort á aðhaldi hins opinbera nefna Samtök atvinnulífsins að laun ríkisstarfsmanna hafi hækkað meira en annarra og að starfsmönnum hafi fjölgað jafnt og þétt hjá ríkinu á undanförnum árum. Þá eru nefnd nokkur dæmi um útgjaldaaukningu fjárlagafrumvarps fyrir árið í ár, og ljóst af þeirri upptalningu að sparnaður og ráðdeild hafa ekki átt upp á pallborðið í fjármálaráðuneytinu við samningu fjárlaganna.

Þess er jafnframt getið í umfjöllun samtakanna að nú þegar megi sjá fyrir að ríkisútgjöld yfirstandandi árs fari fram úr fjárlögum. Nýfallinn dómur um tengingu örorkubóta við tekjur maka gæti kostað ríkið milljarða og það að færa dagvinnulaun framhaldsskólakennara nær heildarlaunum geti kostað ríkissjóð háar fjárhæðir í auknum lífeyrisskuldbindingum. Vísað er í lauslegt mat Péturs Blöndal stærðfræðings og þingmanns um að þetta geti kostað ríkissjóð 14 milljarða króna.