Miðvikudagur 3. janúar 2001

3. tbl. 5. árg.

„Stígum fastara á fjöl / spörum ekki skó; / ráði Guð / hvar við dönsum önnur jól“ segir í gömlu íslensku stefi sem iðulega er sungið um áramót. Það hafa menn lengi vitað að þeir eru ekki einráðir um hvað hendir þá eða hvar þá ber niður. En það er ekki bara að enginn viti hvar hann mun dansa um önnur jól; menn geta ekki treyst því að fá yfirleitt að dansa. Ekki er svo að skilja að frést hafi af því að yfirvöld áformi að banna mönnum að dansa um áramót en aldrei er að vita hvað forræðishyggjumönnum dettur næst í hug. Að minnsta kosti eru þeir alltaf að færa sig upp á skaftið og meðan fáir ef nokkrir rísa upp gegn þeim þá mun sú þróun halda áfram.

Nú um áramótin náðu forræðishyggjumenn nokkrum áfangasigri í baráttu sinni við hinn almenna borgara og athafnafrelsi hans. Eins og svo oft áður var stigið skref sem var nægilega stutt til að fáir geri veður út af því og fáir telji að frelsi sitt hafi verið sérstaklega skert. En skrefið var stigið og á litlu og afmörkuðu sviði hefur girðingin færst aðeins nær borgaranum. Fyrir áramótin voru gefnar út sérstakar reglur um áramótabrennur og var sagt í fréttum að reglurnar, sem fulltrúar ríkislögreglustjórans, hollustuverndar ríkisins og brunamálastofnunar ríkisins rituðu undir, rækju ætt sína til höfuðstöðva Evrópusambandins í Brussel. Nú mega áramótabrennur náðarsamlegast loga í fjórar klukkustundir, ekki mínútu lengur, ekki má brenna hvaða drasl sem er og ekki kveikja upp nema með besta fáanlega eldsneyti. Nú og svo er rétt að hafa í hug að hallinn á brennunum ætti ekki að vera meiri en svona 30-40 gráður.

Á nýársnótt mátti svo sjá ábúðarmikla opinbera starfsmenn mæta að áramótabrennunum og slökkva í þeim. Brennurnar voru að sjálfsögðu minni en áður hafði tíðkast, enda líðst það nú ekki lengur að strákar fari um hverfin og „safni í brennu“. Nú röðuðu borgarstarfsmenn í snyrtilegar brennur hér og hvar um bæinn, gættu þess að hallinn yrði ekki til þess að skaða þá í Brussel, kveiktu svo í á tilsettum tíma og slökktu svo aftur í þegar hinum skilgreinda tíma var lokið. Og fáir sögðu neitt, enda faglegar opinberar reglur um smæstu svið næstum hættar að koma á óvart. Og kannski eiga menn bara að þakka fyrir meðan þeir mega fá einhverjar áramótabrennur. Að minnsta kosti ef marka má Friðrik Þorsteinsson, stöðvarstjóra slökkviliðsins í Öskjuhlíð. Í helgarblaði DV spáði hann svo um þróunina: „Brennur eru á undanhaldi. Þær þykja mengunarvaldur. Þetta eru áhrif frá Brussel og hefðbundnar áramótabrennur hverfa fyrr en síðar ef að líkum lætur.“