Eins og fjölmiðlar hafa fjallað um aftur og aftur þá gengu forkólfar Öryrkjabandalagsins á fund Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands og fyrrverandi fjármálaráðherra til að ræða við hann um kjör sín og dóm sem nýlega var kveðinn upp og þá varðaði. Fréttamenn leituðu álits forsætisráðherra á slíkum fundi og sagði hann að ekkert væri við það að athuga þó menn færu á fund forsetans að ræða sín mál. Forsetinn tæki líklega á móti öllum sem vildu við hann tala og þetta væri alveg sjálfsagt. Þá var ráðherrann spurður að því hvort þessi mál heyrðu á einhvern hátt undir verksvið forsetans og svaraði hann því til að svo væri að sjálfsögðu ekki.
Daginn eftir þótti fréttamönnum ástæða til að bera þetta stutta viðtal undir Steingrím J. Sigfússon formann Vinstri-grænna. Sá merki og málefnalegi maður sagði að þetta væri dæmi um skapofsa ráðherrans þar sem staðreyndin væri sú að auðvitað mættu allir tala við forsetann þó þessi mál heyrðu nú ekki undir hann. Steingrímur J. sagði semsagt eingöngu það sama og forsætisráðherra nema hann hnýtti því við að ráðherrann væri í vondu skapi! Í þessu litla máli er svosem fátt nýtt. Steingrímur J. Sigfússon er álíka málefnalegur og venjulega og þylur hinn venjubundna persónuárásasöng þegar önnur meðul eru ekki tiltæk. Það er hins vegar svolítið sérstakt að þeir eru til sem telja að forkólfar vinstri-grænna séu í málefnalegri kantinum. Þeir sem það halda, vara sig ekki á einu: Þeir eru alltaf að bera vinstri-græna saman við Samfylkinguna.
Og í því liggur drjúgur hluti fylgis vinstri-grænna. Á meðan Samfylkingin talar út og suður, þá sjaldan hún hefur stefnu, þá munu vinstri-grænir þykja bara glettilega málefnalegir. Því vinstri flokkarnir verða alltaf bornir hvor við annan en ekki aðra flokka. Og þeir sem eru í keppni við Samfylkinguna, þeir standa vel að vígi. Á meðan Össur Skarphéðinsson fer fyrir Samfylkingunni mun Steingrímur Jóhann Sigfússon þykja hinn traustasti maður.
Og til að gæta sanngirni þá mega vinstri-grænir eiga það sem þeir eiga. Þeir hafa það umfram Samfylkinguna að þeir vilja ekki framselja fullveldi landsins yfir til Evrópusambandsins og einnig það að ekki er víst að þeir þrái heitast af öllu að eyðileggja hagkvæmasta stjórnkerfi fiskveiða sem þekkist, íslenska aflamarkskerfið.