Ýmislegt hefur verið þeim í hag á Vesturlöndum á undanförnum áratugum sem vilja hafa sitt einkalíf í friði. Aukin velsæld hefur gert þorra fólks kleift að eignast húsnæði fyrir sig og sína og þar með skjól fyrir afskiptasemi annarra. Bíllinn, eina farartækið sem getur flokkast sem almenningssamgöngur, hefur sömuleiðis aukið möguleika fólks til að hafa sitt í friði, bæði áhugamál sín og þrasið við maka og börn á leið úr vinnu og skóla. Það er ólíkt því sem áður var að hafa íbúðarskika út af fyrir sig og bíl til að fara hvert sem er. Á síðustu árum hefur ný tækni svo gert fólki mögulegt að sækja fróðleik og skemmtun heimshorna á milli án þess að yfirgefa stofusófann. Þeir sem vilja ákveða yfir hverju borgararnir skemmta sér hafa átt í erfiðleikum með að bregðast við þessari tækniþróun. Lög gegn áfengis- og tóbaksauglýsingum, ofbeldismyndum, klámmyndum, sóðalegu orðbragði í dægurlagatextum, óæskilegum stjórnmálaskoðunum, ákveðnum íþróttagreinum o.s.frv. hafa að miklu leyti misst marks eftir að allir voru tengdir við alla með nýrri tækni.
En mannlífsskipuleggjendur, mannlífsrýnar og fjölmiðlafólk með hátíðleg hlutverk hafa einnig nýtt sér hina nýju tækni til að raka saman upplýsingum um fólk. Eftirlitsmyndavélar í „þína þágu“ mynda þig á götuhornum og þú ert vafalaust ekki að fara neitt merkilegt í félagi við neinn sérstakan og hefur ekkert að fela. Ef til vill þykir það saklaust að einhver safni upplýsingum af greiðslukortum um það hvað þú kaupir í matinn og hvað þú drekkur með. Eða hvert þú hringir og hverjir hringja í þig. Bankaviðskipti þín þola sjálfsagt dagsbirtuna. Listi yfir vefsíðurnar sem þú heimsækir er vafalaust jafn sakleysislegur og hjá öllum öðrum. Það má efalaust brosa af því að einhver nenni að skoða upplýsingar á borð við þessar, jafnvel hlæja að því að menn leggist svo lágt.
En ef til vill er þetta samanlagt ekki jafn broslegt. Miðað við hve sjálfsagt þykir orðið að birta persónuleg bréf látins fólks í bókum og blöðum mun það innan tíðar vart þykja tiltökumál að birtur sé listi yfir öll símtöl eða annað sem hér var talið upp sem einhverjum ævisöguritaranum eða blaðamanninum þyki „almenningur eiga rétt“ á að skoða.
Það fer nefnilega vaxandi að hvers kyns rýnar telji sig eiga rétt á upplýsingum um þig. Fjölmiðlamenn segjast hafa skyldum að gegna við „almenning“. „Almenningur“ eigi „rétt“ á upplýsingum um allt milli himins og jarðar. Heilbrigðis- og vandamálaiðnaðurinn krefst aðgangs að upplýsingum um þig í nafni vísindanna. Ef þú streitist á móti verður ekki hægt að komast að rót vandans eða lækna sjúkdóma. Ef þú vilt fá félagslega aðstoð, bætur og bein að naga máttu berstrípa þig fyrir framan fulltrúa velferðarríkisins og segja þeim það litla um sjálfan þig sem þeir vissu ekki fyrir. Allt sem þú færð frá ríkinu er háð því að þú gefir ýtarlegar upplýsingar um hagi þína. Að lokum bætast við hinar ljúfu skyldur þínar til að afhenda yfirvöldum nákvæma útlistun á hverjum eyri sem þér hefur áskotnast. Ef þú hefur verið svo vitlaus að leggja fyrir með einhverjum hætti skaltu gera nákvæma grein fyrir því svo skattleggja megi það sérstaklega.