Laugardagur 16. desember 2000

351. tbl. 4. árg.

Yfirskrift leiðara Jónasar Haraldssonar í DV í gær var „Forseti með dómsvaldi“ og var þar vísað til forsetakosninga í Bandaríkjunum. Hér er hlutunum snúið á haus því það var ekki George W. Bush sem tapaði fyrstu, annarri og þriðju talningu atkvæða í Flórída og höfðaði mál til að fá úrslitunum breytt heldur andstæðingur hans. Al Gore tapaði í fyrstu, annarri og þriðju talningu atkvæða og var óánægður með að þar til bær yfirvöld staðfestu þessi úrslit og höfðaði mál til að fá þeim hnekkt. Bush var kosinn forseti og dómstólar staðfestu þá niðurstöðu 36 dögum síðar, Al Gore lýsti því yfir að lokum að hann sætti sig við niðurstöðuna og aðrir leiðtogar demókrata einnig. Deilur um málið fóru friðsamlega fram og lauk á friðsamlegan hátt.

Í viðtali við Morgunblaðið í gær sagði Össur Skarphéðinsson kosningarnar í Bandaríkjunum „áfall fyrir lýðræðið“. Kemur nú maðurinn sem var gerður að formanni Samfylkingarinnar eftir að Jóhanna Sigurðardóttir gjörsigraði hann í prófkjöri skömmu áður. Formaður Samfylkingarinnar er mjög dómbær um gang lýðræðisins eftir að Sigbjörn Gunnarsson varð efstur í prófkjöri Samfylkingarinnar á Norðurlandi eystra en Svanfríður Jónasdóttir settist á þing fyrir flokkinn í kjördæminu. Össur segir jafnframt að breyta þurfi fyrirkomulagi kosninga í Bandaríkjunum „þannig að í framtíðinni verði ekki mögulegt að verða forseti með færri atkvæði en sá sem tapar“. Hér talar maðurinn sem tók þátt í að hanna prófkjör R-lista og Samfylkingar sem gengu einmitt út á það að frambjóðendur með fá atkvæði gætu komist ofar á lista en frambjóðendur með mörg atkvæði. 

Karl Blöndal ritaði pistil um forsetakosningar vestan hafs í Morgunblaðið í fyrradag. Karl sagði: „Þótt í raun sé ljóst að hann [Gore] hafi fengið fleiri atkvæði hvort sem litið er til Bandaríkjanna allra eða aðeins til Flórída…“. Hvað kemur atkvæðafjöldi á landsvísu málinu við? Það eru kjörmenn einstakra ríkja sem velja forsetann. Þannig eru reglurnar. Þær voru ræddar sérstaklega við Gore fyrir kosningar og hann taldi það engu skipta hvor frambjóðandinn fengi fleiri atkvæði á landsvísu, sá væri óumdeildur sigurvegari sem fengi flesta kjörmenn. Bush fékk svo fleiri atkvæði en Gore í þremur talningum í Flórída en engu að síður heldur Karl því fram að í raun hafi Gore fengið fleiri atkvæði.

Og áfram hélt Karl með rangfærslur sem hver fjölmiðillinn hefur etið upp eftir öðrum að undanförnu: „Það er eiginlega með ólíkindum að frambjóðandi [Bush] í kosningum í Bandaríkjunum skuli byggja málflutning sinn á því að ekki eigi að telja öll atkvæði til að komast að niðurstöðu um hver sé hinn eiginlegi sigurvegari og komast upp með það.“ Það voru öll atkvæði talin í Flórída. Sum atkvæði voru úrskurðuð ógild eins og gengur þar sem þau fullnægðu ekki þeim kröfum sem gerðar hafa verið til þeirra við talningu. Bush skipulagði ekki kosningar í einstökum sýslum Flórída, allra síst þar sem demókratar ráða lögum og lofum. Hann kom ekki í veg fyrir atkvæði væru talin á sama hátt og þau hafa verið talin áratugum saman. Nema nú voru þau talin í þrígang.

Endanleg niðurstaða forsetakosninganna í Bandaríkjunum varð tvöfaldur ósigur fyrir evrópska menntamenn með minnimáttarkennd gagnvart Bandaríkjamönnum. Það var ekki nóg með að Bush hefði sigur að lokum. Bandaríkjamenn treystu sig í sessi sem fremsta lýðræðisþjóð í heimi með því að komast að niðurstöðu um hina hnífjöfnu kosningu á friðsaman hátt.